145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:21]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru stórar spurningar. Ég lít þannig á heilt yfir að við séum ein þjóð í einu landi og ég vil að við hugsum á þann hátt að við förum ekki að aðgreina okkur allt of mikið. En ég er alveg sammála því að það er verkefni að þau fyrirtæki sem starfa úti um land og greiða skatta og uppfylla skyldur sínar, að það skili sér á þau svæði þar sem atvinnustarfsemi fer fram. Það hefur vissulega verið vandamál að fyrirtæki eru með starfsemi vítt og breitt um landið, hvort sem það er á Vestfjörðum eða annars staðar, en greiða ekki endilega gjöld sín á þeim slóðum. Ég held að það þurfi að endurskoða og kanna möguleika á því að ná í skatttekjur inn á þau svæði þar sem skattteknanna er aflað.

Ég tel líka að hægt sé að nota þau verkfæri sem við erum búin að koma okkur upp í dag. Ég nefndi í ræðu minni sóknaráætlun og byggðaáætlun og allar þær áætlanir sem við höfum sem eru fín verkfæri sem hægt er að nýta sem farveg fyrir fjármagn til að byggja upp innviðina. Það er að sjálfsögðu mjög gott að landshlutasamtökin séu þar með hlutverk, eins og er hvað varðar þessar áætlanir, og fjármunum sé varið í nærumhverfinu með vilja þeirra sem þar búa, að hægt sé að beina fjármunum ríkisins miklu meira inn í þann farveg svo að öll ákvarðanataka sé ekki á höfuðborgarsvæðinu í hendi embættismanna, ráðherra eða annað slíkt. Ég held að við getum gert svo miklu betur líka miðað við það verkferli sem til er í dag.