145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála því að við getum gert betur, svo mikið er víst. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að sjálfsákvörðunarrétturinn sé ein af lykilgrunnstoðum siðmenntaðs samfélags og því meira sem fólk fái að ráða eigin hag þeim mun betra. Það getur alveg þýtt kvaðir á annað fólk. Við þurfum til dæmis öll að greiða skatta og neyða hvert annað til að greiða skatta til að halda uppi löggæslu og dómskerfi til að vernda réttindi sem við höfum, þannig að þetta er ekkert klippt og skorið. En eins og ég segi spyr fólk mig oft þegar ég fer út á land, og jafnvel þegar ég er hérna: Hefur landsbyggðin efni á Reykjavík? Mér sýnist viðhorfið vera það að á landsbyggðinni verði til miklu meiri verðmæti en er skilað þangað til baka. Þess vegna átta ég mig ekki á því hvers vegna allar þessar ákvarðanir þurfa endilega að vera teknar hér. Vissulega eigum við að hugsa hvert um annað en ég verð að segja eins og er að ég bý í Reykjavík og ætla ekki að búa annars staðar í bili og ég veit ekkert um hagsmuni fólks á landsbyggðinni, nema ef ég spyr það og þá velti ég fyrir mér af hverju það ákveður þetta ekki sjálft.