145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:31]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir það. Það eina sem farið er fram á varðandi byggðirnar til dæmis á Vestfjörðum er að byggðarlögin fái að bjarga sér sjálf, þau fara ekki fram á annað. Það er eins og mönnum sé fyrirmunað að skilja að það er ávinningur í því fólginn að búa svo í haginn að byggðirnar geti bjargað sér sjálfar.

Tökum Dýrafjarðargöngin enn og aftur sem dæmi. Þau eru forsenda þess að áform sem stjórnvöld sjálf hafa uppi um sameiningu sveitarfélaga, sameiningu stjórnsýslustofnana nái fram að ganga. Þau eru forsenda þess að hægt sé að gera svæðið allt að einu þjónustusvæði og einu atvinnusvæði sem er orðið mjög aðkallandi, einmitt til að hægt sé að nýta sér nýsköpunarmöguleikana í ferðaþjónustunni, fiskeldinu og ýmsu öðru sem eru vaxtarsprotar á Vestfjörðum nú þegar, ég tala nú ekki um með raforkuöryggið sem hægt væri að efla með því að koma Dýrafjarðargöngunum á þannig að hægt væri að taka raforkuflutningslínurnar í jörðu í gegnum göngin. (Forseti hringir.) Er þingmaðurinn mér ekki sammála um að byggðirnar fái að bjarga sér sjálfar?