145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:39]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að hv. þingmanni verði ekki að spá sinni um yfirvofandi þenslu. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að það séu minni líkur á þenslunni sem menn eru stundum að tala um heldur en margir ætla og gæti rætt það í lengra máli.

Ég er sammála hv. þingmanni um það að samgöngubætur skipta mjög miklu máli og ekki eingöngu fyrir þá sem búa úti á landi. Samgöngur eru í reynd það sem veitir okkur sem búum hér á suðvesturhorninu frelsi til að ferðast um eigið land. Það er líka nauðsynlegt að ráðast í samgöngubætur til að efla ferðamennsku, sem er núna að verða mest gjaldeyrisskapandi atvinnugrein landsmanna.

Ég kalla stefnuna sem birtist í þessu frumvarpi ekkert annað en hreina sveltistefnu og reyndar er hert á því í nefndarálitinu með því að segja að það taki áratugi með óbreyttum framlögum að endurbæta vegi og koma á viðunandi samgöngubótum. Mér hrýs hugur við því (Forseti hringir.) fyrir hönd landsbyggðarinnar og ég hygg að þetta séu miklar fréttir fyrir landsbyggðarmenn að koma með og flytja heim í héraðið. Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir þessu.