145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:01]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það er sönn sæmd að halda hér ræðu og ég tel að það sé mjög langt síðan þingsalurinn var jafn vel skipaður og nákvæmlega núna. Hér höfum við farið vítt yfir sviðið en áðan spannst athyglisverð umræða um byggðastefnu, landsbyggðina og samgöngumál og þá verð ég að geta þess að ég hef held ég aldrei haldið ræðu um fjárlagafrumvarpið án þess að hafa yfir áhyggjur mínar vegna Árneshrepps. Ég tel að eitt af því sem skortir verulega á af hálfu framkvæmdarvaldsins sé að gera reka að því að bæta samgöngumál Árneshrepps.

Oft hef ég sagt í ræðum mínum að Ísland sé í lagi þegar tvær byggðir eru í lagi. Önnur er Grímsey og hin er Árneshreppur. Nú er það þannig að hæstv. ríkisstjórn hefur gert að minnsta kosti einn góðan hlut að því er byggðamál varðar. Hæstv. ríkisstjórn tók rækilega og röggsamlega á málefnum Grímseyjar og má segja að hún hafi að minnsta kosti fyrir sitt leyti rekið niður gilda stoð undir framhald byggðar í Grímsey. Fyrir það ber að þakka. En ég sem gamall áhugamaður um byggð í Árneshreppi sem fylgst hefur með mannlífi þar finnst því miður sem nú séu að trosna stoðir byggða þar meira en áður, eftir að hafa úr fjarlægð árum saman séð þar töluverðan uppgang að því er mér virtist. Ég skora á þá handhafa framkvæmdarvaldsins sem eru í þessum sal, meira að segja hæstv. menntamálaráðherra. Þótt honum sé málið kannski ekki beinlínis skylt hvað varðar hans málaflokk og fagsvið er það samt svo að hæstv. menntamálaráðherra á ættir að rekja, að minnsta kosti mægðir til þess kjördæmis, þannig að skylt er skeggið þeirri höku. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra velti því nú vel fyrir sér með hvaða hætti hann geti komið að því að treysta stoðir Árneshrepps.

Það er einhver örlagaklökkvi yfir ríkisstjórninni í þeirri fjárlagaumræðu sem nú ríkir. Komið hefur fram hér aftur og aftur að það ríkir mikil óánægja, ekki bara meðal þingmanna stjórnarandstöðunnar heldur líka í liði stjórnarliða varðandi þá aðför, svo ég leyfi mér að nota það orð, gagnvart öldruðum og öryrkjum sem er að finna í þessu frumvarpi og í skyldum frumvörpum.

Eins og hér hefur margsinnis komið fram blasir við að á því kjörtímabili, sem nú er nánast búið að 2/3 og rösklega það, og til þessa dags hefur þessi ríkisstjórn, sem sendir nú hingað í ræðustól hvern þingmanninn á fætur öðrum til að hrósa sér af því hversu gríðarlega rösklega hæstv. ríkisstjórn hafi tekið á málefnum aldraðra og öryrkja, bætt kjör þeirra sem svarar til eins skitins tíuþúsundkalls þegar búið er að draga frá skatta. Það er allt og sumt. Það gerist á sama tíma og hver þingmaður stjórnarinnar á fætur öðrum kemur hingað upp og talar um það blússandi góðæri sem hér ríkir. Það er alveg rétt og það er að verulegu leyti að þakka verkum fyrri ríkisstjórnar sem lagði góðan grunn að þeirri góðu efnahagsstöðu sem nú ríkir að í dag hefur hagkerfinu undið fram með ákaflega jákvæðum hætti. Það hefur leitt til þess að skattstofnar ríkisins hafa eflst, peningarnir sem til ríkisins koma hafa aukist, en samt sem áður er það þannig á sama tíma að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki treyst sér til að ganga lengra í því að rétta hlut aldraðra og öryrkja en þessu nemur. Það sem skiptir síðan mjög miklu máli er það og sýnir og undirstrikar viðhorfið gagnvart öldruðum og öryrkjum hér á Íslandi er sú staðreynd að þeir eru eini hópurinn sem ekki fær bætur sínar greiddar með afturvirkum hætti. Hæstv. menntamálaráðherra sem hér situr á ráðherrabekk einn ráðherra og þingmenn aðrir sem hér eru í salnum fá allir bætur afturvirkar til 1. mars — meira að segja ráðherrar og þingmenn. Allir þeir sem hafa með einhverjum hætti verið orpnir undir kjarasamninga á líðandi ári fá einnig bætur sem ná aftur til 1. maí. Það hefur verið tillaga stjórnarandstöðunnar á þessu hausti að ríkisstjórnin fallist á að aldraðir og öryrkjar fái sömu bætur.

Þegar við förum yfir kjarna þess mikla ágreinings sem speglast hefur í umræðunni og skapað þann mikla hita, að ég ekki segi funa sem finna má af henni, er það fyrst og fremst þrennt sem stjórnarandstaðan hefur verið verulega óhress með. Það er í fyrsta lagi framkoman gagnvart Landspítalanum. Það liggur alveg ljóst fyrir að þar vantar 2,9 milljarða. Það hefur verið rækilega í gadda slegið af hálfu forstjóra Landspítalans sem gekk á fund fjárlaganefndar og lagði fram gögn sem hvergi hafa verið hrakin og hann hefur sýnt fram á það með sterkum rökum á allar hliðar að til að spítalinn haldi einungis í horfi við það sem var á síðasta ári þurfi 2,9 milljarða. Ég er þeirrar skoðunar að stjórnarandstaðan, sem hefur verið húðskömmuð fyrir að halda uppi málþófi á þinginu, eigi ekki að hætta að notfæra sér málfrelsi sitt og eigi ekki að ganga héðan til jólahalds fyrr en það liggur algerlega ljóst fyrir að hæstv. ríkisstjórn ætli með einhverjum hætti að koma til móts við fjárþörf Landspítalans.

Í öðru lagi eru það málefni aldraðra og öryrkja og þá skiptir það úrslitamáli og er höfuðkrafa af hálfu stjórnarandstöðunnar að stjórnarmeirihlutinn samþykki að aldraðir og öryrkjar fái bætur sínar greiddar með afturvirkum hætti í samræmi við aðra og í samræmi við þá tillögu sem þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt hér fram.

Í þriðja lagi eru það málefni Ríkisútvarpsins. Nú ber svo vel í veiði að hæstv. menntamálaráðherra er hrokkinn upp af værum blundi sínum í ráðuneytinu og hefur komið hingað til þings. Þess vegna tel ég að það sé óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. ráðherra með hvaða hætti hann sjái nánustu framtíð Ríkisútvarpsins. Tilefnið er vitaskuld að komið hefur fram, raunar gengið fram af munni hæstv. ráðherra að ekki sé stuðningur við þá tillögu sem hann hefur lagt fyrir ríkisstjórnina. Þá spyr ég hæstv. ráðherra: Til hvaða ráða grípa menn þá? Er það einfaldlega þannig að hæstv. ráðherra ætlar að horfa upp á Ríkisútvarpið grotna í höndum sínum eða ætlar hæstv. ráðherra með einhverjum hætti að grípa til þeirra ráðstafana sem duga? Og telur hæstv. ráðherra að unnt sé að ganga hér frá fjárlögum án þess að að minnsta kosti verði stigin einhver skref í áttina til að bæta stöðu Ríkisútvarpsins?

Frú forseti. Ég vil aðeins í lok þessarar ræðu minnar víkja að því sem ég taldi hér undir lið nr. 2, þ.e. málefnum aldraðra og öryrkja. Það sem hryggir mig er að hér hefur komið hver hv. þingmaður stjórnarliðsins á fætur öðrum og talað um það með augu sín full af tárum krókódílsins að hann vilji gera hitt og þetta, vilji leggja sig fram um að bæta hag öryrkja. En með hvaða hætti ætla menn að gera það? Hv. þm. Willum Þór Þórsson hélt hér ræðu í dag undir liðnum störf þingsins og sagði að enn væri ekki ljóst með hvaða hætti væri hægt að jafna stöðuna innan hóps öryrkja og aldraðra.

Hv. þm. Ásmundur Friðriksson átti hér frækilega ræðu í dag. Hann lýsti líka yfir með svipuðum hætti og hv. þm. Willum Þór Þórsson að það væri svo erfitt að átta sig á stöðunni. Það reyndist hins vegar unnt fyrir stjórnarandstöðuna að draga það upp úr hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni að hann mundi hér við síðari umræður frumvarps til fjáraukalaga styðja tillögur sem fram kæmu um það að aldraðir og öryrkjar fengju afturvirkar bætur, og hafa margir aðrir þingmenn talað í sömu veru.

Ég get ekki annað en spurt þingheim og einkum og sér í lagi þingmenn Sjálfstæðisflokksins: Ætla þeir að koma hingað upp og tala um góðan vilja þeirra til að bæta stöðu aldraðra og öryrkja en gera ekki neitt? Á það að vera hlutskipti hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar eins að ganga gegn straumnum? Það var sá hv. þingmaður sem sagði og vitnaði í helga bók: Af verkum sínum verða mennirnir dæmdir. Og af verkum sínum gagnvart öldruðum og öryrkjum mun þessi ríkisstjórn verða dæmd. Ef svo fer fram sem horfir verður hún dæmd og léttvæg fundin því að það er engin réttlæting á því að aldraðir (Forseti hringir.) og öryrkjar einn hópa samfélagsins fái ekki bætur greiddar til baka aftur á árið með sama hætti og hver einasti þegn þjóðfélagsins annar hefur fengið.