145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:12]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í upphafi ræðu sinnar sagði hv. þingmaður að þingsalurinn hafi verið einstaklega vel mannaður og má halda því fram að hann hafi vart verið betur mannaður nema þá helst þegar hv. þingmaður var hér síðast einn í salnum. (Gripið fram í.)

Af því að hv. þingmaður spurði mig varðandi Ríkisútvarpið í nánustu framtíð er nokkuð ljóst að ef útvarpsgjaldið lækkar úr 17.800 kr. í 16.400 kr. er það umtalsverður niðurskurður. Það er mikilvægt að halda því til haga að það hefur legið fyrir í nokkuð langan tíma.

Ég sagði það strax síðastliðið vor að ég teldi rétt að falla frá þessu meðal annars vegna þess að komið hefur mjög skýrt fram að rekstrarstaða Ríkisútvarpsins er slæm, það kom meðal annars fram í skýrslu sem kennd er við Eyþór Arnalds, frá svokallaðri Eyþórsnefnd. Þar kemur ljóslega fram að frá því að tekin var ákvörðun um 16.400 kr. hefur það komið í ljós sem þá var ekki vitað að kostnaðurinn við dreifikerfi Ríkisútvarpsins er umtalsvert og miklu hærri en talið var. Mín skoðun er sú að það þurfi að taka tillit til þess.

Eins hafa launahækkanir verið umtalsvert meiri en reiknað var með. Ég er þeirrar skoðunar að menn verði líka að horfa til þeirra þátta. Ég tel að það sé sanngjarnt að leggja málið upp með þeim hætti.

Síðan er það auðvitað allt önnur og stór umræða hver verður framtíð Ríkisútvarpsins, hvernig best verður þar haldið á. Ég hef reifað það á opinberum vettvangi að það er nauðsynlegt að horfa til þeirra miklu tæknibreytinga og neyslubreytinga sem eru að verða og orðið hafa á fjölmiðlavettvangi, sem kalla auðvitað á endurhugsun á ýmsu hvað varðar aðkomu ríkisvaldsins að útvarps- og sjónvarpsrekstri. Það er annað mál. Þar er til lengri tíma horft. Nú erum við að horfa á þennan þátt (Forseti hringir.) og ég er þeirrar skoðunar að það kalli á verulegar aðgerðir af hálfu Ríkisútvarpsins ef þetta gengur fram með þeim hætti sem í það minnsta er lagt upp með lögum nú.