145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:24]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessar tölur sem hv. þingmaður nefnir, 2,9 milljarðar, 5,6 milljarðar, í stóra samhenginu virðast þetta ekki vera neitt sérstaklega stórar fjárhæðir, sérstaklega ekki miðað við þær gífurlegu fjárhæðir sem við erum að tala um í þessu sambandi.

Það hefur margoft komið fram, í þeim skoðanakönnunum sem Píratar hafa látið Gallup gera fyrir sig, að það er heilbrigðiskerfið, það er velferðarkerfið sem fólk vill setja í fyrsta sæti. Almenningur vill velferðarsamfélag. Það vill eyða pening í velferð og í spítalann. Af hverju erum við ekki að forgangsraða þannig? Hér eiga að fara 75 millj. kr. til að byggja viðbyggingu við Alþingi Íslands sem er sennilega brot á höfundarétti. Hvernig stendur á því að við erum að spandera pening í einhver gæluverkefni á meðan við erum að svelta Landspítalann? Á ekki að setja 30 millj. kr. í einhvern ráðgjafarhóp? Væri ekki betra að kaupa spartl og málningu fyrir þennan pening? Ég bara spyr.