145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:29]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekkert um það hvort þessari deilu lýkur með nokkurri sátt. Mér sýnist að það séu engar sáttarbrækur sem ríkisstjórnin hefur til að girða sig. Ég hef hins vegar sagt að það séu þrír þættir sem mestu skipta. Í fyrsta lagi að auka framlagið til RÚV, í öðru lagi að auka framlagið til Landspítalans og í þriðja lagi að ná samkomulagi með einhverjum hætti um að bætur til öryrkja og aldraðra verði afturvirkar til 1. maí. Þetta finnst mér vera höfuðatriði, þetta eru kjarnaatriði í þeim mikla ágreiningi sem hér hefur risið.

Ég segi það alveg hreinskilnislega að ég hef engan áhuga á því að hætta að nýta mér málfrelsi mitt fyrr en búið er að stíga einhvers konar skref til samkomulags í þessum málum. Ég lít svo á að það sé verið að fara mjög harkalega og þjösnalega að öldruðum og öryrkjum. Ég tel að það sé verið að taka þá og setja þá einan hópa til hliðar, þeir einir Íslendinga fái ekki að njóta þess sem allir aðrir Íslendingar fá að njóta og þá tel ég að það sé hlutverk stjórnarandstöðunnar að standa í ístaðinu og sýna að aldraðir og öryrkjar eiga sterka fulltrúa á Alþingi Íslendinga sem ætla sér ekki að gefast upp fyrr en þeir verða bókstaflega traðkaðir niður í svaðið af ofbeldisfullum meiri hluta. Þar er auðvitað fremstur í flokki hæstv. forsætisráðherra sem storkaði bæði almennum lögmálum í umgengni við annað fólk og öldruðum og öryrkjum með ummælum sínum í gær þegar hann sagði að stafkrók yrði ekki breytt. Við skulum sjá. Ef það verður niðurstaðan þá er auðvitað búið að slíta friðinn hér, ekki bara á þessu ári, heldur til loka kjörtímabilsins. Menn uppskera eins og þeir sá.