145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:50]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil vel að hæstv. ráðherra sé í svolitlum vanda með þetta. Eins og hæstv. ráðherra sagði sjálfur: Ef ég skil málið rétt. Sem bendir til að hæstv. ráðherra hafi ekki verið með í ráðum þegar lagt var til að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fengi heimild til að selja ofan af Þjóðskjalasafninu. Ég gagnrýni þessi vinnubrögð. Í þessu sambandi skiptir hlutverk fjárlaganefndar ekki miklu máli. Manni finnst þetta vera svona handahófskennd stefnumörkun í málefnum mikilvægs safns og sýna skilningsleysi á hlutverki þess og nauðsyn á traustri umgjörð. En ég átta mig á að hæstv. ráðherra er með aðra skoðun og starfsmenn ráðuneytisins hafa unnið að annarri stefnu, bæði varðandi Ríkisútvarpið og Þjóðskjalasafnið.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að bregðast við spurningum mínum. En eftir situr samt gagnrýnin á þau vinnubrögð að í fjárlaganefnd sitji forusta fjárlaganefndar og breyti stefnu sem mörkuð hefur verið fyrir mikilvægar stoðir í samfélaginu, annars vegar Þjóðskjalasafnið og hins vegar Ríkisútvarpið, sem mörkuð hefur verið af fagráðuneytinu. Það er sannarlega ámælisvert og undarleg vinnubrögð, svo ekki sé meira sagt.