145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:52]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að ræða aðeins við hana um Ríkisútvarpið og stöðu þess, þó að margt hafi líka verið áhugavert í máli hv. þingmanns um málefni Þjóðskjalasafnsins og það verðskuldar reyndar sérstaka umræðu, held ég, almennt um stefnu okkar í málefnum safna. Ég tel að þar mætti mjög margt ræða, t.d. hvernig þeim málaflokki var skipt upp í tíð núverandi ríkisstjórnar undir tvö ráðuneyti sem hefur líka gert þá stöðu enn þá flóknari að mínu viti og aukið talsvert á misræmi í stöðu safnanna.

Hvað varðar Ríkisútvarpið er leitt að allt frá því að Ríkisútvarpinu var breytt í opinbert hlutafélag 2007 við mikla andstöðu á þeim tíma, þáverandi stjórnarandstöðu, og tekið var upp fyrirkomulag útvarpsgjalds má segja að staðið hafi ákveðinn styr um fjármögnun Ríkisútvarpsins. Ekki það að það stóðu auðvitað ávallt ákveðnar deilur um afnotagjaldafyrirkomulagið sem var þó aðskildara frá árlegri fjárlagaumræðu. Það má í raun segja að strax og lögin tóku gildi var útvarpsgjaldið skert, þ.e. haustið 2008 í tíð þáverandi ríkisstjórnar, og voru auðvitað fyrir því ákveðin og sterk rök í ljósi stöðu ríkissjóðs á þeim tíma. Hins vegar hafa verið gerðar athugasemdir við það síðan af sérfræðingum á sviði almannaútvarps, annars vegar hve lengi þær skerðingar héldu áfram, þeim var ætlað að falla niður í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem við hv. þingmaður áttum báðar sæti í 2013 en var svo fram haldið um tíma og síðan farið í að lækka útvarpsgjaldið af hálfu núverandi ríkisstjórnar. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji að þetta fyrirkomulag sé á einhvern hátt gallað, uppspretta átaka um fjármögnun almannaútvarps.