145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hægt er að taka undir það að þetta fyrirkomulag geti verið uppspretta átaka um fjármagnið sem á að fara í að reka almannaútvarp. Það hefur sýnt sig alla vega og það sýnir sig í þeirri umræðu sem við eigum nú. Hins vegar hlýtur það að vera skylda okkar að búa þannig um hnútana að Ríkisútvarpið sé ekki háð hagsmunaaðilum, sem hlýtur þá að lúta að því að það sé ekki háð auglýsingatekjum í framtíðinni. Auðvitað erum við ekki komin þangað en það hlýtur að vera draumastaðan, að ekki sé hægt að segja það með nokkrum hætti eða leiða að því líkum að Ríkisútvarpið sé undir hælnum á einhverjum hagsmunaaðilum. Það verður líka að vera þannig að ekki megi leiða að því líkum að Ríkisútvarpið sé undir hælnum á stjórnmálamönnum.

Við verðum að finna leið til að halda Ríkisútvarpinu sjálfstæðu og að það geti sinnt hlutverki sínu. Við gerum miklar kröfur til Ríkisútvarpsins. Við töluðum um það löngum stundum haustið 2010 þegar skýrsla rannsóknarnefndarinnar var til umræðu hversu mikilvægir fjölmiðlarnir væru og að við hv. þingmenn gerðum miklar kröfur til Ríkisútvarpsins og samþykktum hér, 63 þingmenn, að við skyldum búa þannig um hnútana að útvarpið gæti sinnt hlutverki sínu. Mér finnst að við þurfum að horfa alvarlegum augum á þetta. Menn geta gagnrýnt útvarpið og verið spældir yfir gagnrýninni sem Ríkisútvarpið veitir og aðhaldinu sem það veitir stjórnvöldum. Það er einfaldlega hlutverk þess.