145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:57]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað er það svo ef við lítum til landanna í kringum okkur þar sem alls staðar eru rekin almannaútvörp að oft stendur styr um þær stofnanir, hvort sem litið er til Bretlands, Danmerkur, Svíþjóðar eða Noregs. Það stendur oft styr um þær stofnanir. En þó hefur náðst ákveðin sátt til dæmis vegna þess að þær stofnanir eru ekki á auglýsingamarkaði og náðst hefur sátt um hlutverk þessara miðla. Það hefur líka verið lögð ákveðin áhersla á að ná þverpólitískri sátt um að það skuli vera almannaútvarp. Síðan takast stjórnmálamenn auðvitað þar á um ýmislegt sem kemur upp í tengslum við það. Það er eðli fjölmiðlunar. Hún veldur alltaf umræðu. Það er heilbrigt og eðlilegt.

Við áttum talsvert mikla umræðu hér síðast þegar við ræddum lög um Ríkisútvarpið þar sem reynt var að skilgreina hlutverk þess, til dæmis hvað varðar hinar dreifðu byggðir, hvað varðar menningarhlutverk, tungumálið, og þar þóttist ég nú kenna ákveðinn samhljóm um að mikilvægt er að hafa almannaútvarp. Það hefur mjög mikilvægu hlutverki að gegna til dæmis á málsvæði þar sem við erum 320 þús. manns sem tölum íslensku að hafa miðil sem lítur á það sem skyldu sína að framleiða efni á íslenskri tungu. Hvernig við eigum að leita leiða til að fara úr því að við séum í hverri fjárlagaumræðunni á fætur annarri í harkalegum deilum um stöðu Ríkisútvarpsins, ég ætla ekki að þykjast hafa einhverja lausn á því, en mér finnst það vera mjög brýnt mál. Við horfum hér upp á lítið samfélag þar sem þessi miðill getur skipt mjög miklu máli. Ég vil nú kannski fyrst og fremst segja það í þessu síðara andsvari mínu að mjög mikilvægt er að fundin verði lausn, og ég lít líka til hæstv. ráðherra, þar sem næst einhvers konar sátt um þennan grundvöll þannig að við þurfum ekki að eiga þessa umræðu sem er svo skemmandi og spillandi fyrir Ríkisútvarpið.