145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:12]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var margt áhugavert sem hv. þingmaður kom inn á í máli sínu hvað varðar Ríkisútvarpið.

Fyrst vil ég segja þetta: Ég var honum hjartanlega sammála varðandi tengsl Ríkisútvarpsins við Alþingi. Það var einmitt sú hugsun sem lá til grundvallar þegar við ræddum í þingsölum hvort ætti að gera þær breytingar á stjórn Ríkisútvarpsins að hún yrði skipuð einstaklingum utan þingsins, þ.e. að tilnefningarvaldið kæmi að utan, eða hvort það kæmi héðan úr þinginu. Ég var og er þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt með slíka stofnun að það sé bein tenging hingað inn í þingsalinn til þeirra fulltrúa sem síðan þurfa að standa frammi fyrir fólkinu í landinu og standa skil á gerðum sínum, skoðunum og stefnu. Ég tel að það sé hin rétta leið og rétta nálgun í þessu. Vitanlega þarf að gæta að öllum þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður lýsti svo ágætlega í ræðu sinni, en þetta skiptir máli. Ég var ánægður að heyra þetta.

Hvað varðar auglýsingarnar þá er ég þeirrar skoðunar og er þar ósammála hv. þingmanni að ef ríkisvaldið hefur ákveðið að setja með lögum skyldur á stofnun, sem hún á að uppfylla og taka þátt í og vera inni á fjölmiðlamarkaði, og fyrir liggur hvað ríkið vill að þessi stofnun geri í lögum þá hlýtur hið eðlilega að vera að fjármagn fylgi til þeirrar stofnunar til að standa undir þeim lögum en henni sé ekki ætlað að afla sér tekna í samkeppni við aðra fjölmiðla.

Þá kemur einmitt að samhengi hlutanna. Við viljum hafa sem fjölbreyttasta flóru fjölmiðla. Ríkisfjölmiðillinn hefur sérstöðu vegna þess að um hann gilda lög og það eru sérstakar kröfur sem við höfum á þann fjölmiðil og honum er ætlað (Forseti hringir.) að standa undir. Þess vegna fær hann útvarpsgjald. Hann á þá líka að skilja eftir sem mest svigrúm fyrir aðra fjölmiðla (Forseti hringir.) þannig að við getum notið sem fjölbreyttastrar fjölmiðlaflóru.