145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:14]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við séum sammála um markmiðin hvað varðar hina lýðræðislegu tengingu. Ég hallast að einhvers konar blöndu af tengslum inn í þingsal og inn í þingið og þá hugsanlega með öðrum aðilum einnig og hvet menn í fullri hógværð til að skoða þær tillögur sem lágu fyrir undir lok níunda áratugarins um þetta atriði. Ég skal gera mitt til að grafa þær upp. Síðan hafa komið aðrar ágætar tillögur. Ég er ekki að hvetja til einhvers rétttrúnaðar í þessu efni heldur opinnar umræðu þar sem við gerum það sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir lagði áherslu á í máli sínu hérna áðan, að við reynum að komast að þverpólitískri sátt um málið og göngum til þess með opnum huga. Ég held að við mörg hver viljum það sama þegar að þessu kemur.

Varðandi auglýsingarnar og að ef ríkisvaldið ákveði að reka tiltekna starfsemi þurfi það að standa straum af kostnaðinum við hana. Við megum ekki gleyma hver við erum. Við verðum að horfa til aðstæðna. Ég held að ekki sé rétt að verða svo prinsippföst í huganum að þetta sé annaðhvort/eða. Ég tek hins vegar undir með hv. þingmanni að við hljótum í ljósi þess hver veruleikinn er, þ.e. aðrir fjölmiðlar þurfa líka á fjármagni að halda til að geta rekið sig, að horfa til einhverrar sanngirni í þessum efnum, það er alveg rétt. Það má heldur ekki gerast að auglýsingarnar heltaki Ríkisútvarpið. Aftur kann þarna að vera einhver millileið sem menn gætu farið. Ég hverf ekkert frá því að Ríkisútvarpið þarf (Forseti hringir.) á drjúgum auglýsingatekjum að halda ef við ætlum ekki að gera hitt, að hækka (Forseti hringir.) afnotagjöldin eða rifa seglin.