145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:16]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt vegna fámennis og smæðar hins íslenska markaðar sem við þurfum að vera vakandi yfir því að tryggja að aðrir fjölmiðlar fái vaxtarsvigrúm og eigi möguleika, alls konar fjölmiðlar, stórir og smáir. Ég held að margt af því sem hv. þingmaður sagði hvað varðar sérstakar íslenskar aðstæður hafi alveg átt við en með tæknibreytingum er auðvitað auðveldara nú og meiri möguleikar á því að stunda fjölmiðlun og reka fjölmiðlafyrirtæki. Það er ástæða fyrir því að meira að segja á stórum markaðssvæðum fara menn varlega í því að ríkisfjölmiðlarnir geti aflað auglýsingatekna og koma jafnvel í veg fyrir það til að trufla ekki samkeppnisstöðuna. Ef það eru sjónarmiðin á hinum stóru fjölmiðlamörkuðum þá hafa þau auðvitað enn meira vægi hjá okkur í dag hvað þetta varðar.

Ég tel að við eigum að ræða það hér, þegar kemur að því að tala um framtíð Ríkisútvarpsins, hvernig við getum best staðið að því að Ríkisútvarpið fari af (Forseti hringir.) auglýsingamarkaði og skilji meira svæði og meira svigrúm eftir fyrir sjálfstætt starfandi fjölmiðla til að afla sér tekna og tryggjum þannig meiri fjölmiðlaflóru.