145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:18]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aftur komum við að smæð samfélags okkar. Í mínum huga eru því takmörk sett hvað við höfum efni á mikilli fjölbreytni á öllum sviðum. Við erum komin með alla þessa háskóla. Hefur það endilega orðið til að bæta gæði náms? Ég er ekki viss um það, ekki á öllum sviðum. Ég held að þetta líka eigi við um fjölmiðlana. Við getum fjölgað fjölmiðlum út í hið óendanlega án þess að bæta gæðin. Og þó að einhver fái þá flugu í höfuðið að setja upp fjölmiðil þá eigi hann tilkall inn í einhverjar lögbundnar rekstrartekjur, það hef ég efasemdir um. Ég er ekki á því að fjölmiðlun á Íslandi hafi batnað með aukinni fjölbreytni. Ég held ekki. Ég held að hún hafi því miður að mörgu leyti dalað ef við berum okkur (Forseti hringir.) saman við það sem var hér áður. Við þurfum að meta það líka, mikilvægi fjölbreytninnar (Forseti hringir.) sem ég vil gjarnan tryggja líka en það getur orðið á kostnað gæðanna.