145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:21]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Reyndar held ég að lífeyrisskuldbindingarnar væru þarna hvort sem við værum með ohf. fyrir aftan RÚV eður ei. Stofnanir standa almennt straum af tilkostnaði við lífeyrisskuldbindingar. Það á við um allar opinberar stofnanir.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir og ég er sammála honum um að heppilegra væri að afnema ohf.-fyrirkomulagið. Ég held að það sé ekki til góðs. Hlutafélagaformið er skírskotun til fleirtölu, hlutafélaga þar sem margir hluthafar koma að. Það er hugsunin á bak við kosti hluthafafyrirkomulagsins en þegar hluthafinn er orðinn einn, hlutabréfið undir einum manni sem er einn ráðherra þá erum við ekki að nýta þetta form. Þetta er hálfgerður bastarður að þessu leyti.

Hv. þingmaður minnir okkur ágætlega á mikilvægi þess að við hefðum fengið annað kjörtímabil til að framfylgja óskum okkar og stefnumálum. Þá er ég ekki í nokkrum vafa um að breyting af þessu tagi hefði verið gerð. Reyndar spyr ég sjálfan mig hvort það sé ekki almennur vilji til þess í þinginu. Ég hef skilið það svo á hæstv. menntamálaráðherra að hann hafi ákveðnar efasemdir um þetta fyrirkomulag. Þannig hef ég skilið það. Ég spyr hvort við gætum sameinast um endurskoðun að þessu leyti.

Varðandi nefskattinn var ég alltaf efasemdarfullur um hann. Áskriftargjaldið á sínum tíma var mjög gagnrýnt. Menn töldu að það mundi aldrei ganga upp til framtíðar litið. Ég hélt hins vegar í það fyrirkomulag eins og BBC gerði og aðrir vegna þess að menn óttuðust að það mundi gerast sem síðan gerðist, að það yrði skert og tekið til annarra nota. (Forseti hringir.) Eins og við vitum gerðist það á síðasta kjörtímabili. Menn réttlættu það með tilliti til krísunnar. Ég held áfram í næsta andsvari.