145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:29]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ástæðan sé ein. Menn ráðast í breytingar á kerfinu án þess að fram fari um það opin, gagnsæ umræða. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður sagði að samkvæmt ítrekuðum mælingum hefur komið fram að það er yfirgnæfandi meirihlutavilji í öllum stjórnmálaflokkum um að heilbrigðiskerfið sé rekið af hinu opinbera, að við fjármögnum kerfið þannig óháð rekstrarformi en líka varðandi rekstrarformið, það er meirihlutavilji í öllum flokkum fyrir því að það sé á vegum hins opinbera. Mismikill vilji eftir flokkum en þannig er það.

Mér finnst áhugavert að skoða þær tölur sem hv. þingmaður bendir á. Ég hef ekki legið yfir þeim sjálfur nýlega og treysti mér ekki til að fara út í nákvæma umræðu um þær en hitt veit ég, því það stúderaði ég á sínum tíma, að mælingar OECD á tíunda áratugnum sýndu að þeirra mati fram á að hverri krónu, þeim peningi sem færi í heilbrigðiskerfið væri betur varið hér en víðast hvar annars staðar. Ég hef áhyggjur af því, kannski í ljósi þeirra talna sem hv. þingmaður vísar til, að þetta kunni að vera að breytast. Við einblínum á Landspítalann sem flaggskipið. Vel má vera að við göngum of langt í því á kostnað heilsugæslunnar. Staðreyndin er sú að ef heilsugæslan er vanrækt beinum við sjúklingum sem ella ættu að vera þar á ódýrara stigi inn í dýrara fyrirkomulag. Það hefur margoft komið fram að eftir því sem geta (Forseti hringir.) heilsugæslunnar til að annast sjúklinga minnkar, þeim mun meira lengjast biðraðirnar á bráðavakt Landspítalans.