145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:34]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langaði að nýta tækifærið sem ég hef til að koma í aðra ræðu um fjárlög fyrst og fremst vegna tveggja mála sem hafa sérstaklega verið til umræðu hér í kvöld. Hið fyrra er Ríkisútvarpið sem nokkur umræða fór af stað um í gær í fyrstu ræðu minni og í andsvörum. Ég kom að því áðan í andsvari að það væri mér áhyggjuefni. Ég er mikill stuðningsmaður almannaútvarps. Ég held að almannaútvarp skipti mjög miklu máli. Ég nefndi hér áðan að það væri mikilvægt af menningarlegum ástæðum. Ég held að það sé ekki sjálfgefið fyrir 320 þús. manna þjóð að eiga jafn blómlegt menningarlíf og við Íslendingar eigum. Það er ekki sjálfgefið fyrir 320 þús. manna þjóð að eiga sérstakt tungumál.

Á þeim tímum sem við lifum núna, þegar við heyrum viðvaranir um stöðu tungumálsins, sem mér finnst að hv. þingmenn eigi að hlusta eftir, þá eigum við að vera mjög meðvituð um það hvað þarf að gera þegar kemur að því að gera íslenska tungu gjaldgenga í heimi tölvutækninnar. Ég vil í því samhengi minna á breytingartillögu minni hlutans sem gerir ráð fyrir verulega miklu meiri fjármunum til þess verkefnis en meiri hlutinn gerir ráð fyrir í sínum breytingartillögum. Hæstv. ráðherra kynnti það á degi íslenskrar tungu að hann hygðist efna til samstarfs við aðila á vinnumarkaði sem hefðu hag af því að íslenska yrði gjaldgeng í tölvuheiminum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að stjórnvöld stígi fram með mjög ákveðnum hætti og sýni að full alvara sé á bak við það að gera íslenskuna gjaldgenga. 30 milljóna framlag dugir ekki til þess. Þetta verkefni hefur verið metið upp á 1,5 milljarða til tíu ára. Við leggjum til að 170 milljónir fari til viðbótar í það þannig að hægt verði að setja í það a.m.k. 200 milljónir á ári. Þeir sem gerst þekkja til í tækniheiminum telja að tækifærið sé núna að sníða tungumálið að þeirri tækni sem er að þróast svo hratt. Þau rök halda hins vegar ekki vatni að tæknin sé að þróast svo hratt að við eigum að bíða. Við sjáum líka ákveðin hættumerki hjá yngri kynslóðum sem lifa miklu meira í tæknivæddum heimi en við á þingi þekkjum til. Það þekkja allir sem umgangast börn hversu gríðarlega ólíkt líf þeirra er því sem við upplifðum sem börn þegar kemur að tækninni.

Hins vegar eru ákveðnir áhrifaþættir eins og menningarstofnanir þessa lands. Ég vil telja Ríkisútvarpið með þeim menningarstofnunum af því það hefur stóru hlutverki að gegna þegar kemur að framleiðslu innlends efnis. Tungumálið lifir ekki bara með því að útbúa beygingarlýsingar og gera þær gjaldgengar á stafrænu formi svo að allir kunni að beygja orðin kýr og faðir eða hvaða orð það eru sem fólki finnst almennt erfitt að fallbeygja, tungumál snýst ekki bara um það. Líf tungumála snýst um að við höldum áfram að segja sögur, sögur á okkar máli um samfélag okkar. Sögurnar sem við segjum í samtímanum snúast ekki bara um sögurnar sem eru skrifaðar í bókum, þær snúast ekki síst um það efni sem við horfum á. Ég veit að ég þyki fulltrúi fornra tíma þegar ég upplýsi hér að ég horfi á línulega dagskrá. Mér er sagt að það sé á undanhaldi, þó hefur það komið fram í óformlegri skoðanakönnun minni meðal þingmanna að hlutfall þingmanna sem horfa á línulega dagskrá sé óvenju hátt, ég veit ekki hvað það segir um hv. þingmenn. En fyrst og fremst er þetta framleiðsla á innlendu efni, hvort sem fólk horfir á það á tilteknum tíma eða nær sér í það með nútímatækni. Það eru sögurnar sem fólk vill heyra. Það sjáum við á því innlenda sjónvarpsefni sem hefur verið framleitt og skiptir svo miklu máli fyrir samfélag okkar. Þar hefur Ríkisútvarpið mjög mikilvægu hlutverki að gegna. Hins vegar hefur Ríkisútvarpið mjög mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að því að sinna því sem við getum kallað lýðræðishlutverk, þ.e. að standa undir þeim kröfum almennings að vera upplýsandi miðill sem tekur fyrir mál, segir fréttir af málum og annast upplýsingar, t.d. í kringum kosningar, atkvæðagreiðslur og annað slíkt.

Ég vil rifja það upp hér að á síðasta kjörtímabili, af því að hv. þingmenn hafa vísað til þess, var mikil umræða um hlutverk Ríkisútvarpsins þegar aðstæður voru til að mynda öðruvísi en við höfðum áður kynnst í kosningunum til stjórnlagaráðs, svo dæmi sé tekið, þar sem miklar kröfur voru gerðar á Ríkisútvarpið að kynna alla frambjóðendur. Ég man ekki betur en hv. þingmenn sem hér sátu á því kjörtímabili hafi verið nokkuð sammála um að því hlutverki væri mjög mikilvægt að sinna af hálfu almannaútvarps eða almannaþjónustumiðils eða hvað við köllum það.

Þetta mál hefur verið hér talsvert til umræðu. Ég skynja það að hér eru afar skiptar skoðanir, allt frá því að menn telja að það eigi ekki að vera almannaútvarp yfir í að menn vilja hafa almannaútvarpið nákvæmlega eins og það er núna og allt þar á milli. Það hefur þó yfirleitt verið meiri hluti fyrir því á þingi að vilja hafa almannaútvarp. Fólk hefur haft á því ýmsar skoðanir. Það er mikilvægt að mínu viti að það þróast í takt við breytta tíma í fjölmiðlun og breytta tíma í samfélaginu.

Gerð var tilraun til þess á síðasta kjörtímabili að meta reynsluna af hinu fræga ohf.-fyrirkomulagi. Ohf.-frumvarpið var samþykkt hér í mikilli andstöðu þáverandi stjórnarandstöðu. Það var líklega vorið 2007, ef ég man rétt. Þá var ég ekki komin inn á þing. Það er merkilegt að skömmu síðar lagði þáverandi hæstv. ráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fram frumvarp sem var lagt fram haustið 2008. Það frumvarp dagaði uppi en snerist um að takmarka hlutverk Ríkisútvarps á auglýsingamarkaði. Það var öllum ljóst sem tóku þátt í þeirri umræðu að skoðanir voru mjög skiptar algjörlega þvert á stjórnarmeirihluta og minni hluta á þeim tíma. Það er því ekki ný staða að við deilum um Ríkisútvarpið, fjármögnun þess og hlutverk þess á auglýsingamarkaði.

Eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni ákvað þáverandi ríkisstjórn haustið 2008, vegna þeirra aðstæðna sem þá voru uppi í þjóðarbúinu, eðlilega þar sem horft var fram á 200 milljarða kr. halla á ríkissjóði, að taka úr sambandi mörkunina á útvarpsgjaldinu með þeim rökum að upp væri komin ákveðin neyð í þjóðarbúskapnum. Sú mörkun var mikið til umræðu hér á síðasta kjörtímabili og rætt var um að afnema allar markaðar tekjur. Ég hélt því þá fram í óteljandi ræðum og stend við þá skoðun mína að almannaþjónustumiðill verður að hafa skýrt afmarkaðan tekjustofn, hvort sem við köllum hann afnotagjald eða útvarpsgjald eða hvað það er. Alls staðar þar sem reynt hefur verið að setja almannaútvörp á fjárlög hefur það ekki verið vænleg leið til að skapa sátt um almannaútvarpið, t.d. í Finnlandi en þeir bökkuðu út úr því fyrirkomulagi og hættu við því að það má segja að fjárlagaumræða hvers árs hafi nánast eingöngu snúist um ríkisútvarpið þar. Þetta olli stöðugri togstreitu þar sem stjórnmálamenn höfðu miklar skoðanir á almannaútvarpinu sem á ekki endilega að setja í samband við fjárveitingar. Að sjálfsögðu eiga stjórnmálamenn að hafa skoðun á almannaútvarpinu en það á ekki að setja þær skoðanir í beint samband við fjárveitingar. Þar held ég að ég tali í takt við þá sem standa með almannaútvörpum í Evrópu sem og í Bandaríkjunum þar sem ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að hitta forsvarsmann PBS sem var hér á mikilli ráðstefnu í sumar. Hún sagði: Ekki missa almannaútvarp ykkar því að það er líka uppistaðan fyrir öflugum fjölmiðlamarkaði ef vel er á spilum haldið.

Strax eftir að þessum lögum var breytt 2007 voru lagðar fram breytingar á þeim haustið 2008. Ég setti á laggirnar starfshóp til þess að fara yfir reynsluna af þessu, ekki síst rekstrarforminu sem hér var til umræðu áðan hjá hv. þingmönnum Ögmundi Jónassyni og Höskuldi Þórhallssyni. Ég var sjálf á móti breytingunni í ohf. Ég verð líka að viðurkenna að þegar farið var yfir málin af þeirri nefnd sem þá var starfandi voru vissulega gerðar athugasemdir við það vegna þess að Ríkisútvarpið starfar á samkeppnismarkaði. Það höfðu verið gerðar athugasemdir við það af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA að Ríkisútvarpið væri opinber stofnun. Á það var bent í þeirri umræðu að almannaútvörp annars staðar í Evrópu væru almennt ýmist opinber hlutafélög, eins og í Svíþjóð og Noregi, eða sjálfseignarstofnanir, eins og í Danmörku og Bretlandi. Ég hef alveg mína skoðun á því. Ég var á móti ohf.-væðingunni og fannst hún ekki heillaspor og tel að umgjörðin um ohf. sé um margt ófullkomin á Íslandi, en ég gat ekki annað en fallist á þessi rök. Ég gat ekki hunsað það sem kom fram í þessum málum. Því var það niðurstaða mín að leggja ekki til breytingu á rekstrarforminu, líka vegna þess að lagaumgjörðin um sjálfseignarstofnanir hér á landi er ekki nægjanlega góð.

Kannski væri það verðugt verkefni, og ég hvet hæstv. ráðherra sem hér situr og vona að hann bregðist við því, að efna til þverpólitísks samráðs um þessa hluti og fara vel yfir þá. Ef vilji væri til að fara í einhverjar slíkar breytingar held ég að við þyrftum að horfa almennt á fyrirkomulagið á opinberum hlutafélögum. Ég skal verða fyrsta manneskjan til að viðurkenna að mér fannst ábyrgðin alltaf mjög óljós. Ríkisútvarpið hafði þingkjörna stjórn, aðkoma menntamálaráðherra var í gegnum þjónustusamning og hlutabréfið í félaginu var hjá fjármálaráðherra. Þetta gerði það að verkum að oft var umræðan um það hver ætti að bera ábyrgð á Ríkisútvarpinu lagatæknilega séð flókin. Ég veit alveg hver bar pólitísku ábyrgðina, ég gerði mér grein fyrir því allan tímann meðan ég gegndi embætti menntamálaráðherra að það var ég. Þannig horfum við á málið enn þá í tilfelli hæstv. núverandi ráðherra, að pólitíska ábyrgðin liggi þar. Það breytir því ekki að fyrirkomulagið er lagalega með þessum hætti.

Við ættum að nýta tækifærið hér ef vilji er til þess, og ég vona að það sé meirihlutavilji á Alþingi Íslendinga að hafa almannaútvarp, að reyna að ná þverpólitískri sátt um þennan miðil og horfa líka til fyrrnefndra þátta.

Frú forseti. Mér finnst mjög slæmt að við séum hér enn eina fjárlagaumræðuna að ræða fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins. Það hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra að skorið hefur verið niður í rekstri Ríkisútvarpsins, seldur hefur verið hluti af lóðinni hjá Ríkisútvarpinu og það er verið að breyta ýmsu í rekstrinum. Ég hef lýst yfir stuðningi við þær aðgerðir. Ég hef lýst yfir stuðningi við þá framtíðarsýn sem hefur verið lögð fram af hálfu stjórnenda Ríkisútvarpsins. Það breytir því ekki að við erum hér eilíflega í deilum, nú um fjármögnunina sem lítur þannig út að útvarpsgjaldið eigi að lækka, að síðari áfangi lækkunar sem samþykkt var hér í desember 2013 af núverandi stjórnarmeirihluta eigi nú að koma til framkvæmda. Ég hefði viljað sjá frumvarpið sem hæstv. menntamálaráðherra boðaði, um að þessi síðari áfangi kæmi ekki til framkvæmda, ganga hér fram. Ég hefði viljað að þessari umræðu fylgdi þverpólitískt samráð um framtíðarsýn svo að jafnvel á næsta ári stæðum við hér og deildum ekki um fjármögnun Ríkisútvarpsins. Það væri óskastaða.

Eins og hv. þingmenn heyra gæti ég talað mjög lengi um þetta mál. Mig langar að nota síðustu mínúturnar til þess að ræða stóra málið sem mér finnst vera í þessari fjárlagaumræðu, sem eru kjör lífeyrisþega. Ég vil segja að lokum að það eru stórar tölur sem við í minni hlutanum leggjum til til þess að bæta kjör þessara hópa, lífeyrisþega, öryrkja og aldraðra. Það er alveg rétt sem fulltrúar stjórnarmeirihlutans segja, þessir hópar eru að fá prósentuhækkun, verulega prósentuhækkun. Það breytir því ekki að kjör þeirra, margra hverra, eru óviðunandi í krónum talið. Ég er fyrst og fremst að tala um þá sem eru háðir þessum hluta bótakerfisins, til að mynda öryrkja sem ekki hafa verið á vinnumarkaði og búa einir. Það hafa verið birtar sláandi tölur af hálfu Öryrkjabandalagsins um framfærslu þessara hópa, sem eru með tekjur undir 200 þúsundum núna, 187 þús. kr. fær öryrki sem býr einn og fær greidda heimilisuppbót. Við vitum öll að það dugar ekki til. Þetta fólk býr í sama samfélagi og við og við vitum alveg hvað við þurfum til að lifa af. Stjórnvöld hafa útbúið ágæta reiknivél fyrir okkur sem sýnir hvað kostar að lifa í þessu samfélagi. Öryrkjabandalagið hefur reiknað út fyrir okkur að það þarf 348.537 kr. í ráðstöfunartekjur fyrir aðila sem býr einn.

Það má ekki gleyma framfærsluuppbótinni sem hér hefur verið til umræðu og við hv. þingmenn fáum mörg bréf um. Ég hef fengið bæði bréf og símtöl frá fólki sem er í þeirri stöðu að fá ekki greiðslur úr lífeyrissjóði. Það eru ekki síst konur sem eru í þeirri stöðu að eiga ekki rétt á greiðslum úr lífeyrissjóði. Sérstök framfærsluuppbót skerðist enn þá króna á móti krónu. Staða þeirra til að bæta sína stöðu er bág.

Ég hef hlustað eftir því sem hv. þingmenn segja. Þeir hafa lýst vilja sínum til þess að gera úrbætur. Það væri óskandi, frú forseti, að við sæjum framan í einhverjar slíkar áætlanir hér þó að ég átti mig á því að þær tillögur sem við leggjum fram miða að því að kjör þessara hópa fari upp í 300 þús. kr. í takt við það sem gerist á vinnumarkaði. Ég hef heyrt hv. þingmenn beggja stjórnarflokkanna lýsa því yfir að þeir vilji sjá kjör lífeyrisþega fara í þá upphæð. Ég mundi vilja sjá áætlun um það. Þetta skiptir máli. Þetta skiptir máli af því að það segir sína sögu um okkar samfélag hvernig við búum að þeim hópum sem eru viðkvæmastir fyrir. Það velur sér enginn það hlutskipti að verða öryrki. Það velur sér heldur enginn það hlutskipti að verða aldraður þótt við viljum það auðvitað öll. Það er ekki skemmtilegt hlutskipti að búa við skerta starfsorku alla ævi og geta ekkert að því gert. Ég er fylgjandi því að sjálfsögðu að kerfin okkar veiti þessum hópum þann stuðning og þann hvata sem við getum veitt til að þeir verði virkir samfélagsþegnar. Við sem þekkjum til vitum að það er það sem allt fólk vill, það vill vera virkt í samfélaginu. Það vill taka virkan þátt en getur hins vegar ekki endilega unnið fullan vinnudag. Þessir hvatar verða að vera jákvæðir. Við þurfum að tryggja þessu fólki að það geti lifað af.

Mikið hefur verið rætt um síðasta kjörtímabili í þessari umræðu. Ég vil ekki líkja þeirri stöðu sem nú er uppi, fyrir sameiginlegt átak margra aðila, stjórnmálanna og annarra, þar sem við horfum fram á vonandi bjartari tíma í efnahags- og ríkisfjármálum, við þá stöðu sem hér var uppi 2008 og 2009. Mér finnst sá samanburður ekki ganga upp, frú forseti. Við ættum núna að horfa til framtíðar, hvernig við getum búið þessum hópum mannsæmandi kjör. Það gerum við með því að tryggja að þeir geti lifað af kjörum sínum. Við vitum alveg hvað þarf til að lifa af. Það hafa stjórnvöld sjálf reiknað út fyrir okkur. Þess vegna er það mín helsta ósk hér að við náum líka einhverri sátt um að bæta kjör þessara hópa meira en gert er í frumvarpinu og horfum til þess líka hvað kostar margar krónur og aura að lifa af í samfélaginu.