145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:53]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður séum sammála um mikilvægi ríkisútvarpsins hvað varðar menningarþáttinn og þá alveg sérstaklega þegar kemur að því að bjóða upp á efni sem beint er að börnum og ætlað er að örva málþroska þeirra. Ég hef stundum rifjað upp þá umræðu sem varð í þjóðfélaginu á sínum tíma, um svokallað Kanasjónvarp, og þær áhyggjur sem við höfðum þá í samfélaginu af áhrifunum á tungumálið. Ef menn bera það saman við þá stöðu sem nú er uppi þá held ég að full ástæða sé til þess fyrir okkur að taka alvarlega þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir.

Virðulegi forseti. Mig langar til að beina einni spurningu til hv. þingmanns: Við ræðum hér um Ríkisútvarpið. Getur hv. þingmaður ekki verið sammála mér um að það væri bót að því að við ættum líka samtal um fjölmiðlamarkaðinn í víðara samhengi? Við ræðum Ríkisútvarpið svo einangrað um margt og ég tel að við missum (Forseti hringir.) af þeirri umræðu sem er svo mikilvæg, þ.e. hvernig við tryggjum sem best fjölbreytni með Ríkisútvarpinu og öðrum fjölmiðlum í landinu.