145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:54]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég held að það sé nauðsynlegt. Ríkisútvarpið er ekki einangrað fyrirbæri, en það hefur kannski það tvíþætta hlutverk sem ég nefndi hér áðan; við lítum í senn á það sem fjölmiðil og sem menningarstofnun. Við þurfum ávallt að taka umræðuna um Ríkisútvarpið og fjölmiðlamarkaðinn út frá því hlutverki sem við gefum því sem menningarstofnun í lögum og reglum um Ríkisútvarpið. En að sjálfsögðu er Ríkisútvarpið ekki einangrað í samfélaginu.

Samkeppni Ríkisútvarpsins við aðra fjölmiðla, til dæmis um auglýsingatekjur, er hluti af vandanum sem barst aðeins í tal áðan. Ég hef reyndar verið þeirrar skoðunar að í besta heimi allra heima þá væri það líka hlutverk hins opinbera að styrkja aðra fjölmiðla, eins og við þekkjum raunar annars staðar á Norðurlöndunum þar sem hið opinbera styrkir fjölmiðla, svæðisbundna fjölmiðla, hefur styrkt sjóði um rannsóknarblaðamennsku til dæmis, sem einungis er veitt úr samkvæmt samkeppnissjónarmiðum. Það væri mjög fýsilegur kostur ef svigrúm gæfist til.