145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:58]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að fjalla svolítið heiðarlega og með sanngjörnum hætti um það sem gert hefur verið í málefnum lífeyrisþega. Þetta er eiginlega fyrsta ræðan frá stjórnarandstæðingi sem mér finnst vera svona sæmilega heiðarleg. (Gripið fram í: Þú hefur ekki hlustað á hinar.) Jú, ég hef hlustað á þær ansi margar. En ég ætlaði ekki að eyða miklum tíma í það atriði.

Ég ætla aðeins að ræða um Ríkisútvarpið vegna þess að mér finnst við vera svolítið föst í gömlu fari: Þetta er stofnunin okkar. Við stofnum hollvinasamtök og þetta verður einhvern veginn að vera svona.

En markmið okkar er, og ég held að flestir séu sammála því, að efla innlenda menningarframleiðslu á sjónvarpsefni og útvarpsefni. Þurfum við að gera það með þeim hætti sem nú er? Er ekki líklegt að það efli fjölmiðla að við styðjum við framleiðslu á slíku sem einkaaðilar geta gert? (Forseti hringir.) Ég er svolítið á sömu nótum og menntamálaráðherra. En þurfum við alltaf að vera í þessu formi? Mundi það ekki jafnvel gefa okkur meiri kost á að auka peninga til framleiðslu á innlendu menningarefni?