145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:02]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Einkaaðilar hafa auðvitað unnið alveg gríðarlega mikilvægt starf við framleiðslu á innlendu menningarefni. Við getum nefnt Stöð 2, sem hefur gert alveg gríðarlega góða hluti í þeim efnum, og við getum nefnt Kvikmyndasjóð, sem er auðvitað opinbert fé sem úthlutað er samkvæmt ákveðnum leikreglum. En hv. þingmaður kom hins vegar ekki inn á lýðræðishlutverkið sem er ekki síður mikilvægt. Lýðræðishlutverkinu verður ekki sinnt með styrkjum og samkeppnissjónarmiðum (Gripið fram í.) sem sveiflast upp og niður. Ég held að lýðræðishlutverkið skipti nefnilega máli og það væri óskandi að við næðum umræðu um þau mál. Ég held að við megum ekki vanmeta mikilvægi þess fyrir okkur á þingi og allt samfélagið að hafa þá kjölfestu í lýðræðislegri umræðu sem almenningur á. Við eigum ekki Ríkisútvarpið, starfsmennirnir eiga ekki Ríkisútvarpið, almenningur á það. Almenningur getur gert gríðarlega ríkar kröfur til þess að Ríkisútvarpið sinni sínu lýðræðislega hlutverki. Það verður ekki gert með því að henda stofnuninni og hafa þetta allt í (Forseti hringir.) styrkjaformi, svo ég segi það nú heiðarlega sem mína skoðun.