145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:06]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er annað sem mig langar að spyrja hv. þingmann um leið og ég þakka fyrir svörin við fyrri spurningu. Hún varðar hinar svokölluðu mörkuðu tekjur. Ákveðið var árið 2008 að nefskatturinn eða útvarpsgjaldið mundi ekki renna að fullu til fyrirtækisins. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni, ef ég man rétt, að hún hefði í rauninni verið á móti því þó að hún hefði samþykkt það ítrekað þegar fjárlög hvers árs voru samþykkt.

Þetta snýst um aga. Umræðan á síðasta kjörtímabili um að ekkert af þessum mörkuðu tekjum mundi renna til stofnana vegna þess að þá mundu einhverjir fitna á meðan aðrir þyrftu að líða skort, snerist um aga. Þetta snerist um það að jafnræði væri á milli stofnana, að allar þessar tekjur kæmu inn í ríkissjóð til þess að ná svokölluðum jöfnuði og aga í ríkisfjármálum sem við þurftum svo nauðsynlega að ná.

Ég spyr hv. þingmann: (Forseti hringir.) Þó að hún vilji að allur nefskatturinn renni til Ríkisútvarpsins, getur hún þá ekki verið sammála því (Forseti hringir.) að fyrst og fremst þurfi að ná aga og jöfnuði í ríkissjóði til þess að geta horft fram á veginn?