145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:09]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni mjög góða ræðu. Hún ræddi um örorkulífeyrisþega og talaði um umræðuna um að það væri mikilvægt að það væru hvatar og stuðningur við fólk til að vinna. Örorkulífeyrisþegar eru veikt fólk og hafa mjög skert starfsþrek og þess vegna eru þeir með örorkubætur. Við vitum líka að samkvæmt rannsóknum er það þannig að þeim mun öflugra velferðarkerfi sem við búum við þeim mun meiri er viljinn til vinnu. Þannig er það nú.

Ég held að hvatarnir hljóti að koma í gegnum kerfið sem smíðað er í kringum þarfir þeirra sem eru veikir, en ekki að þeir veiku lagi sig að kerfinu. Ég spyr: Er ekki eðlilegt að hvatarnir verði þeir að vinnumarkaðurinn taki tillit til örorkulífeyrisþega (Forseti hringir.) og að við lögum kerfið þannig að það hætti að vera „króna á móti krónu-skerðingu“? Væri það kannski hvati sem við ættum frekar að tala um en að fólk þurfi að herða sig?