145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:15]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða fjárlög ársins 2016 við 2. umr. Ég ræddi fjárlögin við 1. umr. og langar að bæta aðeins í.

Ég hef reyndar haft þá skoðun að áður en fjárlögin eru tekin til 2. umr. ættu menn að hafa lokið við frumvörp sem liggja inni í efnahags- og viðskiptanefnd, sem eru forsendur fjárlaganna. Mér hefur alla tíð þótt það sérkennileg niðurröðun að ræða fjárlög við 2. umr. án þess að forsendur fjárlaga sem sitja inni í efnahags- og viðskiptanefnd hafi verið kynntar með þeim breytingum sem hugsanlega verða þar á. Þar af leiðandi hefur mér oft og tíðum þótt áherslan í þessari umræðu vera á einstaka þætti án þess að horft sé á heildarforsendur sem fjárlagafrumvarpið byggir á.

Þar inni er í það minnsta breyting sem er skattbreyting gerð í samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins vegna kjarasamninga á þessu ári. Þegar ljóst var að megináherslu ætti að leggja á lægstu launin og hífa þau sem mest upp, sem flestir geta verið sammála um að var rétt, áttuðu menn sig á því að það yrði erfitt að horfa á millitekjuhópinn sem mundi þá rjúka upp skalann og stefna í hættu, ef við gætum orðað það svo, þeim meginmarkmiðum að reyna að hækka lægstu laun, sem hefur verið markmið verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda frá því að elstu menn muna. Til að hægt yrði að ná samkomulagi meðal annars við Verslunarmannafélag Reykjavíkur komu stjórnvöld að með breytingu á skattþrepi, miðþrepinu, um að lækka það í áföngum nú um áramótin 2016 og svo að fullu við áramótin 2017 Þetta var gert og var ein forsendna við gerð kjarasamninga.

Jafnhliða samþykktu Samtök atvinnulífsins að ræða ekki lækkun tryggingagjalds. Þetta tvennt hékk saman á spýtunni við gerð kjarasamninga. Nú þegar ljóst er í hverju í raun allir kjarasamningar eru fólgnir og hversu menn óttast að fari úr böndum og hugsanlegt að brostnar séu forsendur fyrir þeim kjarasamningum sem gerðir voru á almennum vinnumarkaði, sem mun væntanlega þurfa endurskoðunar við þann 1. febrúar, þá er horfið frá lækkun tryggingagjalds. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, hvað sem hverjum finnst í þeim efnum, að hér sé tryggingagjaldið of hátt og það ætti að lækka. En þarna voru gerðir gagnkvæmir samningar á milli Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar og með aðkomu stjórnvalda.

Í mínum huga skiptir líka máli við slíka gjörð og við gerð fjárlaga og fyrir alla, ekki einungis fyrir einstaklinga heldur einnig fyrir fyrirtæki og ríkið sjálft, að hér sé stöðugt skattumhverfi þannig að þeir sem þurfa að semja um kaup og kjör, þeir sem vilja standa í atvinnurekstri skynji að skattumhverfið sé ekki sveiflukennt frá ári til árs eða á fjögurra ára fresti eins og oft vill verða þegar skipt er um ríkisstjórnir og megináherslur breytast í pólitíkinni. Það er nú einu sinni þannig í pólitík að okkur greinir flest á í ólíkum flokkum um leiðir að markmiðum þótt við séum e.t.v. í flestum tilvikum sammála um markmiðin, sem er að gera gott samfélag betra.

Að mínu mati vantar líka inn í þessa umræðu um fjárlögin að tollar og vörugjöld hafa verið felld niður af flestum vöruflokkum, þótt einstaka flokkar virðist enn þá hanga einhvers staðar inni þá er það þannig. Það hlýtur eða ætti í það minnsta ekki aðeins að skipta fólkið í landinu máli heldur líka verslunina vegna þess að hún hefur kvartað yfir tollum og vörugjöldum og hún hefur talið að verslunin hafi flutt úr landi meðal annars vegna þessa. Þetta eru allt þættir sem skipta máli í heildarsamhengi þegar rætt er um fjárlögin og forsendur þeirra.

Við áttum við fjárlög síðustu ára þegar breyting á virðisaukaskattinum átti sér stað og búin voru til tvö þrep í stað þriggja. Við færðum 7% upp í 11%, (Gripið fram í.) lægra þrepið fór upp og efra þrepið fór niður. Þannig var það gert og þar af leiðandi hækkaði virðisaukaskattur á ýmsar matvörur en þá kom líka í ljós að fæstar matvörur báru tolla, þannig að það kom ekki að sök. Hins vegar gefur augaleið að hækkun virðisaukaskatts á matvæli kom við alla, sjálfsagt verst við þá sem lægst hafa launin en vonandi hefur afnám tolla og vörugjalda skilað þessum hópi einhverju síðan.

Það sem skiptir líka máli í umræðunni um fjárlög þessa ár og síðasta árs og fjárlög allra ára er að stefnt sé að því, eins og hér hefur verið gert, að kynna og ná fram hallalausum fjárlögum. Það er algert grundvallaratriði ef á að vera mögulegt að bæta í á einhverjum sviðum að hægt sé að leggja fram hallalaus fjárlög og með því draga úr skuldasöfnun og greiða niður skuldir, sem við vitum að þýðir lægri vaxtagreiðslur ríkisins sem getur væntanlega kallað á aukin umsvif. Þetta eru grunnþættir að mínu mati í því sem við ættum að ræða samhliða þeim áherslum sem hver og einn getur lagt á í því frumvarpi sem liggur fyrir með breytingartillögum jafnt minni hluta sem meiri hluta, hvernig þær svo aftur verða til.

Ég ætla að gera þá játningu hér að ég hefði viljað sjá tvennt í þessum fjárlögum sem ekki sér stað. Ég hefði viljað sjá dregið úr ríkisrekstri, það er einfaldlega þannig. En í þessum fjárlögum er það ekki gert. Ég er þeirrar skoðunar að báknið sé þegar of stórt og það sé ekki stórt mál, ætti ekki að vera það, að draga úr því. Ég er þeirrar skoðunar að það sé margt í ríkisrekstri sem aðrir aðilar geta sinnt úti á hinum almenna markaði og að ríkið sé langt í frá besti aðilinn til að reka alla skapaða hluti á milli himins og jarðar.

Ég álít einnig að okkur hafi ekki tekist að gera ríkisreksturinn skilvirkari né að auka framleiðni. Ég held að það sé líka grundvallaratriði til að hægt sé að fara almennt í aukin umsvif og til að ná fram hagkvæmni og árangri í ríkisrekstri, til að við getum síðan veitt góða og öfluga þjónustu í samræmi við væntingar þeirra sem hennar eiga að njóta.

Það hefur verið margrætt af hálfu meiri hlutans í fjárlaganefnd að betur mætti standa að innkaupa- og útboðsmálum hjá hinu opinbera og að mörg fyrirtæki hafi ekki sinnt þeim skyldum sínum að fara þá leið sem þar hafa verið innleiddar. Það er einn sá þáttur sem má skoða verulega.

Síðan er það líka það sem snýr að hinu háa Alþingi. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr setjum við oft lög sem leggja auknar byrðar á sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga án þess að við látum þess getið samhliða í hverju þær byrðar eru að öllu jöfnu fólgnar. Það verður að segjast eins og er að eftirlitsstofnanir, margar hverjar, hafa einhverra hluta vegna þanist gífurlega út. Það sem atvinnufyrirtæki í landinu þurfa að greiða til eftirlitsstofnana, ýmissa þátta vegna, skiptir milljörðum á ári hverju. En hver fylgir eftir eftirliti með þessum eftirlitsstofnunum? Hverra er eftirlit eftirlitsstofnananna? (Gripið fram í.)Ég held að það sé hvergi. Ég er þeirrar skoðunar, og það ætti ekki að koma neinum á óvart, að ýmislegt innan þessa svokallaða eftirlitsiðnaðar, sem ég vil kalla svo, mætti þess vegna færa að einhverju leyti út til Samtaka atvinnulífsins, í samræmi við lög og reglur sem hafa komið héðan. Það hlýtur að mega íhuga að skoða þennan þátt vegna þess að það getur ekki verið, ég trúi því ekki, að það sé markmið einhvers að byggja upp ríkisrekinn eftirlitsiðnað sem enginn sinnir síðan eftirliti með.

Á bls. 6 í nefndaráliti fjárlaganefndar kemur fram hvernig ýmsar eftirlitsstofnanir hafa þanist út. Það kemur kannski ekki á óvart í sjálfu sér að á árunum 2007–2016 hafi Fjármálaeftirlitið farið hamförum og hlutfallið er í 203%. Fjármálaeftirlitið hefur stækkað um 200% þrátt fyrir að fjármálastofnunum hafi fækkað og dregið hafi saman á þeim vettvangi, þannig að maður veltir fyrir sér hvort betur mætti fara með fjármuni. Það eru markaðar tekjur sem renna til Fjármálaeftirlitsins en með nýju frumvarpi um opinber fjárlög verður það úr sögunni. Þá er það fjárlaga að úthluta öllum þeim eftirlitsstofnunum sem hér eru nefndar fjármunum. Ég ætla að leyfa mér að fagna því að svo verði vegna þess að ég held að markaðar tekjur eins og þær eru í dag séu barn síns tíma og það er ljóst að einstaka stofnanir sem njóta markaðra tekna hafa þanist. Það er alla vega mitt mat og menn geta svo verið ósammála því.

Það er líka á bls. 6 sem fjölmiðlanefndin er nefnd en hún á að hafa eftirlit með fjölmiðlum. Hún hefur stækkað töluvert en hefur fjölmiðlamarkaðurinn stækkað? Eru gefin út miklu fleiri dagblöð í dag en áður? Eru fjölmiðlarnir í sjónvarps- og útvarpsrekstri miklu fleiri nú en þeir voru? Ég held ekki. Er virkara eftirlit með fjölmiðlum og eignarhaldi fjölmiðla og þess háttar en var áður? Ég veit það ekki en fjölmiðlanefnd hefur í það minnsta vaxið of mikið að mínu mati. Ég var reyndar ósátt við stofnunina frá upphafi en það er annar handleggur.

Virðulegur forseti. Við erum í 2. umr. fjárlaga. Fjárlaganefnd fær fjárlagafrumvarpið inn eftir 1. umr., sendir það út til umsagnar, menn þekkja þetta, og síðan tekur fjárlaganefnd á móti gestum og fram fer umræða og að lokum kemur afurð frá fjárlaganefnd. Sú afurð birtist í þremur eða fjórum nefndarálitum og í breytingartillögum meiri og minni hluta. 2. umr. hefur staðið æðilengi og hefur farið í að takast á um áherslur og breytingartillögur meiri og minni hlutans og er ósköp eðlilegt að svo sé. En mér finnst umræðan bera keim af því að minni hlutinn sé að reyna og ætli sér með einum eða öðrum hætti að knýja fram breytingartillögur á breytingartillögum meiri hlutans og um það snúist í umræðan í raun. Ég velti því fyrir mér hvort ekki ætti frekar að greiða einfaldlega atkvæði um breytingartillögur minni hlutans og síðan breytingartillögur meiri hlutans og þannig kæmi fram vilji þingsins til þeirra tillagna sem liggja fyrir, í stað þess að við þingmenn í meiri hluta og minni hluta tökumst á í orðum um það hvort minni hlutanum takist að knýja fram breytingar á tillögum meiri hlutans. Þetta er í mínum huga kjarni umræðunnar.

Við höfum farið mikinn í umræðunni og okkur greinir á, eins og ég sagði í upphafi, okkur greinir á um þær áherslur og breytingartillögur sem fyrir liggja í tillögum meiri hlutans og síðan minni hlutans. Umræðan hefur snúist um að það þurfi að fá aukna fjármuni, sérstaklega hafa menn rætt Landspítalann og að það þurfi samkvæmt forstjóra Landspítalans hátt í 3 milljarða til að spítalinn geti staðið sína plikt.

Ég hef verið á þingi síðan árið 2007. Væntanlega hefur Landspítalann alltaf vantað fjármagn vegna þess að ég man aldrei eftir umræðu um fjárlögin öðruvísi en þannig að í byrjun september hafi hafist sú umræða í fjölmiðlum, aðallega í fjölmiðlum og jafnt í ritmiðlum sem útvarpi og sjónvarpi, að það vantaði fjármagn í Landspítalann. Það er enn þá svo. Það heyrist hins vegar mun minna, í það minnsta í fjölmiðlum og í umræðunni um kragasjúkrahús, um Sjúkrahúsið á Akureyri og aðrar stofnanir. Ég verð að leyfa mér að segja að ég velti því fyrir mér hvort sú ofuráhersla í allri heilbrigðisumræðu sem lögð er á Landspítalann sé sú eina rétta. Við erum að tala um að fjárveitingar til Landspítalans eru í kringum 52 milljarðar á fjárhagsárinu 2016 og af þeirri tölu er talað um að það þurfi 2–3 milljarða til viðbótar til að spítalinn geti staðið sína plikt.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta sérkennileg umræða vegna þess að þessir 3 milljarðar miðað við hina 52 eru lítill hluti af heildarupphæðinni, en að sjálfsögðu eru þetta miklir peningar. Ég vil að það komi fram að mér þætti skynsamlegt að velta því fyrir sér hvort skoða mætti heilbrigðisþjónustuna almennt út frá fleiri sjónarhornum en því að einblína á Landspítalann sem slíkan, hvort hugsanlega væri hægt að færa ákveðin verk af Landspítalanum á önnur sjúkrahús í næsta nágrenni, eins og reyndar er gert en að gera það þá í meira mæli, og hvort við gætum létt álagi af Landspítalanum með því t.d. að útbúa vistrými fyrir langlegu aldraðra sem liggja þar inni vegna þess að þeir komast ekki annað. Það kostar eftir því sem stendur í fjárlögunum um 15 milljónir ári að hafa fullorðinn sjúkan einstakling á Landspítalanum sem gæti átt gott viðurværi, ef við getum orðað það svo, á hjúkrunarheimili sem er töluvert ódýrari lausn. Við þurfum hugsanlega að nálgast þessa umræðu á þann hátt. Það eru allir sammála um að Landspítalinn á að geta orðið hátæknisjúkrahús sem veitir þá þjónustu í stórum og erfiðum þáttum sem önnur sjúkrahús geta ekki veitt, en það hlýtur að mega horfa til þess að hugsanlega sé hægt að færa einhver ferliverk út af Landspítalanum og þá til annarra þátta. Landspítalinn er verkefni heilbrigðisráðherra sem og hér í fjárlögunum og úr því að komið hefur fram krafa um að aukið fé verði sett í Landspítalann er það væntanlega hugsað í samvinnu við hæstv. heilbrigðisráðherra sem hlýtur að geta horft til þess í heildarmyndinni um heilbrigðismál á Íslandi og er best til þess fallin.

Við höfum svo sem ekki talað mikið um skólamál en í breytingartillögum meiri hlutans í það minnsta er verið að setja inn í háskólana um það bil 310 milljónir. Við hljótum að fagna því þó að við getum sagt, eins og um allar aðrar stofnanir, að þeir gætu flestir nýtt sér meira fé.

Ég vil nefna að í breytingartillögum meiri hlutans eru lagðir auknir fjármunir í ljósleiðaraverkefni hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Ég tel afar mikilvægt að á því verkefni verði haldið af festu og langar að gera að umtalsefni það dreifikerfi sem RÚV keypti fyrir 4 milljarða og virðist vera að sliga þá stofnun. Kerfið er ekki það sem kallað er gagnvirkt dreifikerfi og hefur komið í ljós að það er handónýtt og nýtist lítið sem ekki neitt. Þeir 4 milljarðar sem þar liggja hefðu farið langt með að ljósleiðaravæða landið okkar. Og þegar menn segja svo að stjórn stofnunar sem gerir svona arfavitlausan samning eigi ekki að bera neina ábyrgð á slíkum samningi er mér allri lokið. Ég er ekki þeirrar skoðunar að hækka eigi eða láta útvarpsgjaldið renna óskipt til RÚV vegna þess að mér finnst Ríkisútvarpið skulda Alþingi það að sýna okkur þennan samning sem var gerður og kanna hvort hægt sé að segja sig frá honum með einum eða öðrum hætti. Mér er kunnugt um það að árið 2011 var gerð athugasemd við að farið yrði í að gera þennan samning en hann var gerður árið 2013. Svo stöndum við hér og tölum eins og ábyrgð þeirra sem hafa stýrt Ríkisútvarpinu gegnum tíðina sé engin. En þeirra ábyrgð á þessum samningi er þeirra og engra annarra.

Það er líka verið að setja aukið fjármagn í samgöngumál, hafnir og flugvelli. Ég verð að taka undir það með hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur sem hún sagði í umræðu, að mig minnir í gær frekar en í dag, að það hefði farið betur á að hér væri samgönguáætlun sem við sæjum fyrir okkur hvernig við ætluðum að vinna úr inn í framtíðina. Engu að síður er hægt að fagna þeim fjármunum sem þarna koma inn.

Menn hafa lýst því hér, og þá einkum og sér í lagi hv. þm. Ögmundur Jónasson, að þeir beri ugg í brjósti vegna hugsanlegra breytinga á nýjum heilsugæslustöðvum sem hugsanlega verða settar á laggirnar á höfuðborgarsvæðinu, að rekstur þeirra verði færður frá ríkinu til einkaaðila þótt fjármagnið komi frá ríki. Eins og hv. þingmaður hefur sjálfur sagt og allir vita þá eru allir flokkar sammála um að heilbrigðiskerfið á að fjármagna með skattfé en við erum ekki öll sammála um hvort fleiri geti veitt þá þjónustu og rekið slíka þjónustu en ríkið sjálft.

Ég ætla ekki að hverfa frá þessari ræðu minni öðruvísi en koma að því máli sem margir hafa rætt sem eru almannatryggingar og aldraðir og öryrkjar. Það er þannig samkvæmt 69. gr. laga um almannatryggingar að bætur almannatrygginga eiga að breytast árlega og taka mið af launaþróun samkvæmt lögum og aldrei að hækka minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Menn hafa farið mikinn um það hvernig komið sé fram við eldri borgara og öryrkja. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það hvað öðrum finnst. Ég vil hins vegar benda á að þegar þessi ríkisstjórn tók við var strax sumarið 2013 afnumin sú regla að lífeyrissjóðstekjur skertu grunnlífeyri. Það var gert. Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega og öryrkja var hækkað í 1,3 milljónir og frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna var líka hækkað. Skerðingarhlutfall tekjutrygginga var lækkað úr 45% í 38,35% þann 1. janúar 2014. Þetta hefur verið gert nú þegar.

Það sem áætlað er að gera í fjárlögum þessa árs er að prósentuhækkanir á árinu 2016 verða 9,7%. 1. janúar á þessu ári fengu eldri borgarar og öryrkjar 3% hækkun. Þá fékk enginn launþegi hækkun þannig að þegar komið er að 1. janúar 2016 er þetta í mínum huga svona: 9,7 + 3 = 12,7%. Það er nú einu sinni þannig. Þá hafa frá 1. janúar 2015 til 1. janúar 2016 kjör öryrkja og eldri borgara hækkað um 12,7%. (ÖS: Þeir fá ekki afturvirkt.) Þá kallar hv. þm. Össur Skarphéðinsson: Þeir fá ekki afturvirkt. Nei, og ég ætla að svara hv. þingmanni því sem mér finnst í þeim efnum. Mér finnst ekki, og fer ekkert í grafgötur með það, að kjör ellilífeyrisþega og öryrkja eigi ekki að lúta sömu lögmálum og kjarasamningar á frjálsum markaði. Hins vegar ber Alþingi samkvæmt lögum um almannatryggingar að tryggja þessum hópum mannsæmandi laun.

Menn hafa rætt um lægstu laun og að 9,7% hækkunin 1. janúar 2016 þýði það að einhleypur einstaklingur, reyndar með heimilisuppbót, fái tæpar 247 þús. kr. Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir sagði í dag að aðilar Flóabandalagsins og einhvers annars félags, (Gripið fram í: VR.) VR, hafi í kringum 270 þús. kr. í lágmarkslaun. Við að tala um 277 þús. kr. og 240 þús. kr. Vissulega eru 25 þús. kr. þar á milli sem án efa skipta margan manninn máli. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar og ligg ekki á henni að þótt ég sé hlynnt því og treysti því að einhvern tíma verði það svo að kjör aldraðra og öryrkja verði með þeim hætti að þeir einstaklingar geti lifað mannsæmandi lífi — og er reyndar þeirrar skoðunar að það eigi ekki einu sinni að tala um þá í sama orðinu vegna þess að öryrkjar eru á allt á öðrum stað en eldri borgarar og fólk sem er komið á minn aldur og yngra mun þegar það nálgast eftirlaunaaldurinn, sem er hjá mér á næsta ári þegar ég verð 67 ára, flest hafa úr að spila lífeyristekjum og lífeyristekjurnar og greiðslur þeirra munu ekki skerða grunnlífeyri. Hann er hins vegar ekki hár, ég held að hann sé 36 þús. kr. Menn verða þá og ég skora á þingheim, þann sem er í forustu fyrir svokallaðri Péturs Blöndals-nefnd sem sett var á laggirnar og á þá sem sitja í nefndinni, að ljúka endurskoðun á almannatryggingakerfinu. Færið það velferðarráðherra sem býr það síðan í lög til að sjónarmiða hópsins sem komið hefur að þeirri vinnu, sem eru allir hagsmunaaðilar, sjái stað í nýjum lögum um almannatryggingakerfið á Íslandi.