145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:49]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki sammála henni um allt, kannski frekar fátt. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður sagði í fyrri hluta ræðu sinnar að sér fyndist eðlilegt að við gengjum strax til atkvæða og ræddum þessi mál ekki frekar, létum reyna á lýðræðislegan vilja. Síðan afsannaði hún ágæti þeirrar kenningar, fannst mér, með því að færa rök fyrir því hvernig við ættum hugsanlega að gera breytingar. Hún nefndi að sér fyndist, vísaði reyndar aðallega þar í tillögur stjórnarandstöðunnar, að of mikið væri lagt upp úr Landspítalanum þegar horft væri til heilbrigðiskerfisins.

Mér finnst mjög gott og gagnlegt að við ræðum þetta. Við erum að ræða um framlag til velferðarmála og til ríkisfjármálanna almennt og þingið hefur fjárveitingavaldið á hendi. Mér finnst sú umræða sem hefur farið hér fram í kvöld hafa verið málefnaleg. Við erum að ræða hlutina og reyna að skilja hlutina og hvað vakir fyrir stjórnvöldum. Ég nefni það sem dæmi, sem hv. þingmaður vék einnig að, hvað vekti fyrir stjórnvöldum með útboði á heilsugæslustöðvum hér á höfuðborgarsvæðinu.

Ég hef fært rök fyrir því hér í þingsal og í greinarskrifum að ég telji að þarna muni aldrei myndast markaður, ekki á milli heilsugæslustöðvanna sem slíkra. Það er hins vegar hægt að virkja samkeppnishvata innan kerfisins. Það er allt annar handleggur. Ég hef viljað að hæstv. heilbrigðisráðherra kæmi til þessarar umræðu þannig að við gætum rætt þessi mál og skilið hvað vakir fyrir mönnum þannig að fjárveitingavaldið viti að hverju það er að ganga.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvað á hún (Forseti hringir.) við þegar hún segir að ríkisrekstur sé allt of mikill á Íslandi og vísar þar í báknið? Hvaða bákn nákvæmlega er hún að tala um?