145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:51]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég segi það bara hér og nú við hv. þingmann: Mætti fækka í utanríkisþjónustunni? Mætti fækka sendiráðum? Mætti fækka starfsmönnum í ráðuneytum sem enn sinna deildum sem hafa verið fluttar yfir til sveitarfélaga? Mætti skoða ýmsan rekstur ráðuneytanna, tölvuþjónustu og annað slíkt, þjónustu sem hægt væri að veita úti í bæ?

Í mínum huga er enginn rekstur með þeim hætti að ekki megi skoða hann. Og í mörgu finnst mér, þar sem ég tel mig þekkja til, að gjarnan hefði mátt sleppa því að auglýsa lausar stöður þegar ein staða losnar. Mér finnst „þankagangurinn“ í kerfinu ekki vera þannig að það eigi að vera möguleiki. Með fullri virðingu fyrir öllum þeim sem hafa setið sem skólastjórar, bæjarstjórar, skólameistarar, ráðherrar og þá skiptir mig engu máli í hvaða flokki við erum; ég held að flestir hafi einhverra hluta vegna lítið sem ekkert gert í því að draga úr kerfisbákninu innan ráðuneyta. Skólameistarar og skólastjórar eru kannski bundnari lögum hvað það varðar hver kennir námsgreinar og annað slíkt, þannig að það er kannski ekki alveg sambærilegt, en ég held að fæstir ráðherrar hafi dregið saman í rekstri og enn fjölga þeir aðstoðarmönnum.