145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:56]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem mér fannst málefnaleg og heiðarleg og draga vel í ljós muninn á pólitík þeirri sem ég aðhyllist og síðan hennar, draga mjög vel fram af hverju við erum ekki í sama flokki. En hv. þingmaður gerði það, að mér fannst, á mjög heiðarlegan og málefnalegan hátt.

Hv. þingmaður talaði um kjör aldraðra og öryrkja og sagði að líta megi svo á að vegna þess að kjörin hækkuðu um 3% 1. janúar 2015 og voru þannig allt árið 2015 og hækka svo 1. janúar 2016 um 9,7%, að þá megi líta svo á að þarna séu komin 12,7% og síðan haldi hækkunin 9,7% út árið 2016. Ég vil þá spyrja hvort hv. þingmaður líti þannig á að lægstu laun sem hækka um 10,9% 1. maí og halda þannig út allt árið og hækka svo aftur um 5,9% 1. maí 2016 hafi þá hækkað um 16,8% og hvort við eigum þá ekki að bera þær tölur saman. Þar er heilmikill munur. Þetta verður til þess að aldraðir og öryrkjar sem eru ekki með neinar aðrar tekjur lenda langt undir lágmarkslaunum. 25 þús. kr. munurinn er nú heil 10% og fólk sem er á lágum launum munar um það.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji að það sem verið er að gera núna sé í anda laga um almannatryggingar og hvort það sem gert var árið 2011, kjarasamningar þá, hafi ekki frekar verið í þeim anda?