145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar að spyrja fyrst út í orð hennar um eftirlitsstofnanir. Hún vitnaði í bls. 6 í nefndaráliti meiri hlutans. Þar er tafla sem sýnir mismunandi fjárveitingar frá árunum 2007–2016 og ég geri ráð fyrir að það sé á verðlagi hvers árs þannig að það er mjög erfitt að sjá nákvæmlega hver aukningin er þó að hún sé augljóslega einhver og umtalsverð í sumum þeirra stofnana, þó tel ég alls ekki allra því að það er náttúrlega ekki tekið fram um að þetta sé á verðlagi einhvers ákveðins árs. Þetta er því mjög erfið tafla og í raun villandi.

Hv. þingmaður talaði um að það gæti verið eðlilegt að hluti af þessu færi yfir til Samtaka atvinnulífsins og hver ætti að hafa eftirlit með eftirlitsaðilanum. Það er þannig að þessir opinberu eftirlitsaðilar sem gæta almannahagsmuna heyra undir stjórnsýslulög, það eru því kæruleiðir fyrir borgarana og fyrirtækin og fara þarf að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga. Það er því mjög skýr rammi. Það mun ekki ná til Samtaka atvinnulífsins taki það þessa starfsemi yfir. Eins er það þannig að það eru jafningjaúttektir frá erlendum sambærilegum stofnunum og slíkt. Ég vildi því velta fyrir mér, hérna eru stærstu stofnanirnar, t.d. Fjármálaeftirlitið, Mannvirkjastofnun, Matvælastofnun, Lyfjastofnun, Samkeppniseftirlitið, Vinnueftirlitið og Fiskistofa. Þessar stofnanir hafa allar eftirlit með íslenskum fyrirtækjum eða þeim fyrirtækjum sem starfrækt eru hér á markaði og einhverjum þáttum starfsemi þeirra. Er eðlilegt að mati þingmannsins í raun og veru að láta atvinnulífið sjálft (Forseti hringir.) hafa eftirlit með sjálfu sér? Og hver á að hafa eftirlit með því þá?