145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:06]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að tjá mig um það því að þessi tafla er fyrir mig algjörlega ónothæf af því að ég sé ekki raunhækkunina. Þetta eru nafnstærðir á tíu ára tímabili þar sem hefur verið mikil verðbólga. Sú sem hefur hækkað mest er fjölmiðlanefnd. Hún hefur hækkað á tíu árum um 31 milljón að nafnverði. Ég geri ráð fyrir að — já, það er einhver raunhækkun, en þetta eru lágar fjárhæðir. Sú sem hefur stækkað næstmest er Fjármálaeftirlitið. Ég er mjög þakklát fyrir öflugt fjármálaeftirlit. Mér finnst ekkert ógnvænlegt við að það blási út, þó að allar stofnanir eigi að gæta að skilvirkni og passa þurfi upp á fjárhag allra stofnana, þá líka eftirlitsstofnana. Mér fannst miklu óhugnanlegra þegar Fjármálaeftirlitinu var haldið litlu, en fjármálakerfið fékk að blása þannig út að það var tíu sinnum verg landsframleiðsla sem sprakk síðan (Forseti hringir.) yfir okkur öll. Má ég þá frekar biðja um svolítið stærra Fjármálaeftirlit.