145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:07]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í minni fyrstu ræðu um fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp fór ég yfir þau grundvallaratriði ef svo má að orði komast sem mér fannst fjárlagafrumvarpið endurspegla. Það voru fyrst og fremst þau atriði sem ég tel að skilji á milli þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr að völdum og þeirrar sem á undan fór. Ég tel að ég hafi rakið það allítarlega í þeirri ræðu svo ekki þurfi að endurtaka hér hvaða meginþættir það voru sem ég sá aðfinnsluverða að þessu leyti sem endurspegluðust í frumvarpinu. Misskipting, ójöfnuður, skortur á framtíðarsýn eða langtímastefnumótun í mjög mikilvægum málaflokkum, samfélagslega mikilvægum málaflokkum eins og velferðarmálum.

En í þessari ræðu, virðulegi forseti, langar mig að beina athyglinni að byggðamálum og samgöngum eða því sem við getum kallað lífinu í landinu sem mig langar að spegla núna í fjárlagafrumvarpinu. Byggðaröskun undanfarinna ára og áratuga víða á landsbyggðinni er ekki náttúrulögmál eins og ég hef reyndar þrástagast á í ýmsum ræðum í þinginu áður. Hún er afleiðing ákvarðana og aðgerða. Hún er mannanna verk. Mörg þeirra byggðarlaga sem nú eru í vanda gætu með réttum aðgerðum snúið vörn í sókn og náð viðspyrnu ef þau fengju bara réttu verkfærin.

Á síðasta þingi lögðu þingmenn Samfylkingarinnar fram þingsályktunartillögu sem mér finnst rétt að vekja athygli á í samhengi við umræðuna um bráðaaðgerðir í byggðamálum því að við töldum og teljum enn að ástand ýmissa byggðarlaga sé það alvarlegt að það kalli á tafarlausan stuðning við atvinnuþróun, menntun, velferðarþjónustu og uppbyggingu innviða. Um leið teljum við brýnt að þeim byggðum sem eru í vörn sé gert kleift að bjarga sér sjálfar, að þær fái að þrífast á eigin forsendum og dafna eins og þær hafa í raun og veru burði til ef innviðirnir sem halda samfélögum þeirra uppi eru treystir nægilega því að íbúar þessara svæða kæra sig ekki um plástra á sín svöðusár. Þessar byggðir þurfa bara að fá verkfærin í hendurnar til þess að fá að bjarga sér sjálfar og njóta auðlinda sinna og landgæða og mannauðs þannig að þær nái að byggja upp vænleg búsetu- og atvinnuskilyrði á sjálfbærum forsendum.

Fjárlagafrumvarpið býður ekki upp á lausnir í því efni, þvert á móti. Við sjáum hér niðurskurð á fjármagni til sóknaráætlana. Við vitum að í þinginu er enginn samgönguáætlun og það sem lagt er til í fjárlagafrumvarpinu eru handahófskenndar aðgerðir sem bera þess augljóslega merki að það skortir framtíðarsýn enda engin samgönguáætlun í gildi og hefur ekki verið það síðan 2014.

Verstu óvinir byggðanna eru dreifbýli, lágt menntunarstig og hækkandi meðalaldur, erfiðar samgöngur, einhæft atvinnulíf þar sem störfum hefur farið fækkandi. En þessi byggðarlög eiga sér engu að síður viðreisnar von og gætu fullvel bjargað sér ef þau nytu þeirrar innviðauppbyggingar sem er nauðsynleg til atvinnu- og búsetuþróunar. Þá er ég einkum að tala um góðar samgöngur, örugga raforku og traust fjarskipti á borð við símasamband og internetaðgengi.

Í þessu samhengi vil ég vekja athygli á ábendingum sem Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur sent fjárlaganefnd þar sem kemur fram það mat Fjórðungssambandsins að það telji að tillögur meiri hluta fjárlaganefndar við 2. umr. frumvarps til fjárlaga 2016 endurspegli þá stöðu sem lögbundnar langtímaáætlanir stjórnvalda eru núna í svo sem samgönguáætlun, sóknaráætlun landshluta, byggðaáætlun, fjarskiptaáætlun og fleiri. Sambandið bendir á, eins og segir hér, svo ég fái með leyfi forseta að vitna orðrétt í þetta bréf:

„Er ýmist að endurskoðun áætlana fæst ekki afgreidd frá Alþingi svo sem í tilfelli samgönguáætlunar og fjarskiptaáætlunar eða að fjárhagsrammi endurspeglar ekki markmið stjórnvalda í málaflokknum svo sem með sóknaráætlun landshluta og byggðaáætlun.“

Síðan segir í þessu erindi Fjórðungssambands Vestfirðinga, með leyfi forseta:

„Framangreind staða leiðir til þess að áætlanir eru vanfjármagnaðar, en til þess að bregðast við brýnustu úrlausnarmálum þá er gripið til aðgerða með einskiptisfjármögnun sem taka verður ár hvert til umræðu við afgreiðslu fjárlaga. Vinnubrögð verða því ómarkviss, undirbúningur ákvarðanatöku ógagnsær og tímasetning aðgerða virkar tilviljanakennd, þótt markmið aðgerða sé í flestum tilvikum jákvætt.

Framangreindar áætlanir varða framþróun Vestfjarða miklu og hefur Fjórðungssambandið lagt ríka áherslu á að þær verði efldar og verkefni tímasett og óvissu um framgang mála þar með eytt.“

Mér finnst rétt að vekja athygli á þessu erindi Fjórðungssambands Vestfirðinga sem eru samtök sveitarfélaga á svæði sem hefur verið fyrir alllöngu skilgreint sem svæði í vörn og hefur verið skilgreint á þessum vettvangi þannig að samstaða hefur verið um það í orði kveðnu að það þurfi að njóta forgangs til þess að snúa við þeirri neikvæðu byggðaþróun sem það hefur átt við að glíma á undanförnum áratugum, ekki síst eftir að kvótakerfinu var komið á undir lok síðustu aldar. Því miður hefur hins vegar sú samstaða verið, eins og ég sagði, meiri í orði en á borði og eins og Fjórðungssambandið bendir réttilega á skortir verulega á að fylgt sé þeirri langtímastefnumótun sem sett hefur verið á blað bæði varðandi sóknaráætlanir og byggðaáætlun. Eitt skýrasta dæmið sem við höfum eiginlega um þetta er sú staða sem uppi er, þ.e. skeytingarleysi ríkisstjórnarinnar í samgöngu- og raforkumálum, ekki síst fyrir þennan tiltekna fjórðung.

Eins og ég gerði að umtalsefni í morgun þá sáum við nýlega í fjölmiðlum viðtal við forstjóra Landsnets í tilefni af því að 30 möstur Landsnets brotnuðu í fárviðri sem gekk yfir landið ekki alls fyrir löngu. Tjónið varð mest á Vestfjörðum með þeim afleiðingum að þar fór rafmagn af og er í raun og veru keyrt inn á kerfið núna eftir öðrum leiðum með dísilvélum og í gegnum vararafstöðvar þar sem viðgerðum er ekki lokið. Núna í vikunni sá forstjóri Landsnets ástæðu til að vekja athygli á því sem fyrirtækið hefur reyndar bent á í fjöldamörg ár, þ.e. mikilvægi þess að styrkja flutningskerfið. Hann benti á þá tillögu Landsnets að leggja línur í gegnum Dýrafjarðargöngin þá og þegar þau verða að veruleika og þegar þar að kemur, sem við skulum nú vona að verði, að við séum farin að sjá fyrir endann á þeirri bið, verður það auðvitað bylting í raforkumálum Vestfirðinga vegna þess að þar með er búið að leggja línurnar í jörð og verja þær fyrir þeim veðurham sem hefur lagt línurnar niður á heiðum og fjallvegum hingað til.

En eins og ég gerði líka að umtalsefni í morgun þá hlýtur það að vekja athygli og áhyggjur þegar við sjáum fram á að áform um Dýrafjarðargöng eiga ekki að verða að veruleika fyrr en í fyrsta lagi árið 2017. Þetta er umhugsunarefni ekki síst í ljósi þess að allir hafa verið sammála um mikilvægi þessarar samgöngubótar fyrir þetta tiltekna landsvæði. Þessi göng sem áttu að verða fyrstu göngin samkvæmt fyrstu jarðgangaáætluninni sem lögð var fram á Alþingi hafa verið tilbúin til útboðs í meira en fimm ár.

Maður spyr sig auðvitað þegar svo mikið er í húfi og svo augljós ávinningur af því að ráðast í þessa framkvæmd eftir hverju sé verið að bíða þegar það blasir við að þarna er hægt að slá tvær flugur í einu höggi og leysa stórkostlegan byggðavanda og stórbæta aðstöðu byggðanna, atvinnulífsins og nýsköpunarfyrirtækja og raunar allra sem reiða sig á orkuflutninga. Það verður bylting í búsetuskilyrðum á svæðinu þegar þessi göng verða að veruleika og í rauninni alveg með ólíkindum að það skuli ekki hafa gerst fyrr og að stjórnvöld, núna þegar mörg orð eru höfð uppi um velvilja þessarar ríkisstjórnar í garð byggðanna í landinu, skuli ekki sjá ávinninginn af því að láta til skarar skríða, réttara sagt hysja upp um sig í þessu máli.

Það þarf ekki að minna á það, að minnsta kosti ekki Vestfirðinga, að í fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar sem slegin var af þegar nýir stjórnarherrar komust að völdum var gert ráð fyrir því að þessari framkvæmd yrði lokið á næsta ári og hefði nú betur orðið að veruleika. Það var nefnilega mikill skaði fyrir byggðir landsins þegar fjárfestingaráætlun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur var ýtt út af borðinu af núverandi ríkisstjórn því að þá var um leið ýtt út af borðinu þeirri styrkingu innviða og eflingu byggðaþróunar sem sú áætlun gerði ráð fyrir. Það var náttúrulega sérstaklega átakanlegt að samgönguátak þeirrar áætlunar skyldi fara forgörðum því að góðar samgöngur eru grundvöllur fyrir eðlilegri atvinnuþróun í landinu. Samgöngurnar eru eins og æðakerfi og það eru örugg fjarskipti og raforka auðvitað líka. Hnökralaust internetsamband er lykilatriði fyrir uppbyggingu atvinnulífs og rafrænnar stjórnsýslu sem svarar auðvitað tímanna kalli og það er á þeim þáttum sem jafnræði íbúa veltur varðandi opinbera þjónustu og aðgengi að afþreyingu, menningu og menntun, svo ekki sé talað um atvinnusókn og atvinnuþátttöku.

Þær byggðir sem ekki búa að öruggum samgöngum og öruggum fjarskiptum eru fyrir vikið byggðir í vörn. Ég nefni t.d. Árneshrepp á Ströndum (Gripið fram í.) sem hefur verið árlegt umræðuefni í þinginu mörg undanfarin ár. Gisin byggð, byggð í hættu, en byggð sem engu að síður hefur möguleika og hefur verið að nýta sér möguleika til dæmis við uppbyggingu í ferðaþjónustu og strandveiðar á sumrin sem hafa hleypt lífi í þéttbýlisstaðina í Strandasýslu. Þetta er dæmi um byggðarlag sem gæti bjargað sér ef það fengi verkfærin og ég tala nú ekki um ef það fengi samgöngurnar sem er auðvitað orðið alveg til skammar að skuli ekki vera orðnar viðunandi nú þegar.

Ef þessar þrjár meginstoðir, samgöngur, raforka og fjarskipti, standa sterkar í hverjum landshluta þá eru þær trygging fyrir búsetuskilyrðum. Það hlýtur að teljast sjálfsagður hlutur á öðrum áratug 21. aldar hvar á landinu sem er að hafa þessa megininnviði í lagi, ekki síst þar sem stefnt er að aukinni samþættingu þjónustu og stefnt að sameiningu stjórnsýslustofnana og sameiningu sveitarfélaga.

Ég vil líka nefna húshitunar- og flutningskostnað sem er annar íþyngjandi þáttur sem veldur umtalsverðri mismunun á milli landsvæða. Húshitunarkostnaður á köldum svæðum fer margfalt yfir það sem tíðkast á hlýrri svæðum landsins sem njóta hitaveitu. Það er sjálfsagt jafnréttismál að jafna þennan mun og löngu tímabært að stíga fastar á fjöl varðandi það en gert hefur verið. Þó var gerð sú bragarbót á síðasta þingi að samþykkt var 215 millj. kr. hækkun í þennan lið á grundvelli nýsamþykkts frumvarps um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar sem gerði ráð fyrir því að greiða að fullu niður hjá þeim sem ekki eiga kost á fullri hitun með jarðvarma. Það vantar samt enn þá samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 153 millj. kr. að mati Orkustofnunar vegna rafhitunarinnar og 62 millj. kr. vegna fjarvarmaveitunnar, þ.e. 215 millj. kr. sem á vantar. Þá vantar 65 millj. kr. til jöfnunar kostnaðar vegna dreifingar raforku. Það er því ekki verið að standa við þau fyrirheit sem þingið gefur og þá stefnu sem það setur sér sjálft í nýsamþykktu lagafrumvarpi. Það er eiginlega ekki ásættanlegt.

Þegar ljóst er að tiltekin svæði sitja á hakanum í öllu því sem nú hefur verið nefnt þá er það sjálfsögð og eðlileg krafa til upplýstra stjórnmálamanna að þeir leiðrétti þá skekkju því að við erum saman í þessu þjóðfélagi. Við eigum þennan ríkissjóð saman og landshlutarnir eiga að sitja við sama borð varðandi tækifæri til uppbyggingar og þróunar. Ríkisstjórnin þarf að gera sér grein fyrir því í málefnum byggðanna að tíminn er dýrmætur fyrir byggðir í vanda og vörn. Það er aðkallandi að jafna tækifæri landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðanna um landið allt. Það er aðkallandi að auka fjármagn til sóknaráætlunar landshlutanna í stað þess að skera þær niður.

Það er líka mikilvægt að sveitarfélögin eigi þess kost að njóta tekna af vaxandi ferðamannastraumi víða um land og að ráðstafanir verði gerðar til að það geti orðið og að þau eigi þess kost að byggja upp álitleg ferðamannasvæði innan sinna marka og taka þátt í því með ferðaþjónustuaðilum að gera svæði sín að álitlegum valkosti fyrir ferðamenn. Það er ekki nógu gott að vera að reiða fram einhverjar neyðarreddingar í fjáraukalögum til að byggja upp ferðamannastaði. Það er fullkominn skortur á framtíðarsýn. Ferðaþjónustan er og hefur verið hraðvaxandi undanfarin ár og hennar vöxtur jafnvel orðinn of mikill fyrir ákveðin landsvæði meðan önnur gætu sem best tekið við því sem út af stendur. Það er því æskilegt í öllu tilliti.

Síðast en ekki síst þarf að gera þá kröfu að nægar fjárveitingar séu tryggðar í fjárlögum til að bæta aðgengi að menntun og tryggja öryggi sjúklinga og gæði geðheilbrigðisþjónustu og almennrar heilbrigðisþjónustu um allt land. Það þarf ekki að hafa mörg orð um mikilvægi þess að grunnþjónusta í mennta- og heilbrigðiskerfinu sé aðgengileg í heimabyggð. Í því ljósi er náttúrulega mjög neyðarlegt að sjá hvernig í gegnum fjárlögin er verið að reyna að halda fullorðnu fólki frá framhaldsskólakerfinu sem var kannski vonarneisti, sérstaklega eftir harðindi eftirhrunsáranna, því fólk átti möguleika á að afla sér menntunar í heimabyggð og gera sig gildandi á vinnumarkaði.

Ég sé að tími minn er að renna út, virðulegi forseti. Ég verð þar af leiðandi að stytta mál mitt en ítreka það að það er ábyrgð stjórnvalda á hverjum tíma að (Forseti hringir.) sjá til þess að ávöxtunum sem uppskornir eru sé jafnt og skynsamlega dreift niður á almenning í landinu. Mér finnst þetta fjárlagafrumvarp ekki bera þess merki.