145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:28]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hún vék að ýmsum þáttum, samskiptum ríkis og sveitarfélaga, mikilvægi þess að unnið væri eftir skipulegum verkferlum, að við hefðum til að mynda samgönguáætlun til að styðjast við og þingmaðurinn gagnrýndi, réttilega hygg ég, að ekki væri nægilegu fjármagni varið til vegabóta.

Mig langar hins vegar til að spyrja hv. þingmann, sem hefur í umræðum hér á Alþingi látið sig velferðarmál verulega varða, hvernig hún skýri tregðu stjórnvalda og stjórnarmeirihlutans til að láta nægjanlegt fé renna til heilbrigðisþjónustunnar og þá sérstaklega til Landspítalans, en forráðamenn hans telja að þar skorti á 3 milljarða til að hann geti risið undir þeim skyldum sem við höfum sett á herðar þeirri stofnun.

Ég hef viljað halda því fram, og þá ekki síður með hliðsjón af samskonar þróun innan heilsugæslunnar, að það sé verið að þröngva þessari þjónustu, þessari grunnþjónustu, inn í einkavæðingarfarveg. Er hv. þingmaður sammála mér um það efni? Eða hvernig skýrir þingmaðurinn að stjórnvöld og stjórnarmeirihlutinn tregðast við að verða við kröfum okkar um úrbætur sem munu augljóslega, þ.e. ef þær ná ekki fram að ganga, leiða til uppsagna og skerðingar á þjónustu í flaggskipi íslenska heilbrigðiskerfisins?