145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:30]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Við sitjum uppi með ríkisstjórn sem skeytir ekki um mikilvægar undirstöður í samfélagi okkar. Hana skortir langtímastefnu og framtíðarsýn í málaflokkum eins og í málefnum velferðarkerfisins. Það skortir umhyggju, eða það sem mætti kalla umhyggju eða alúð. Ríkisstjórnin stendur ekki með velferðarkerfinu.

Þess vegna er velferðarkerfið eins og munaðarlaust barn og tötrarnir hylja nektina eins og hjá Landspítalanum og hungurlúsin heldur því á lífi. En þetta er ekki burðugt. Þetta dafnar ekki eins og það þyrfti að gera við eðlilegar aðstæður.

Mér hefur því miður fundist eins og vísvitandi væri verið að brjóta niður velferðarkerfið til að geta réttlætt einkavæðingaráform. (Gripið fram í.) Ég get nefnt lítið dæmi. (Gripið fram í.) Bara biðlistarnir. Nú er farið að ýta fólki af biðlistunum út í einkaþjónustuna.

Maður sem um daginn þurfti að endurnýja ökuskírteini sitt og þurfti að fá nýja augasteina hann fær þá ekki fyrr en eftir marga mánuði. Honum lá á ökuskírteininu, þannig að hann fór á einkastofu, borgaði hvað það var 200–400 þús. kr., ég veit ekki hvað aðgerðin kostar á einkastofunni. Fékk augasteinana og ökuskírteinið. Það er þetta sem er að gerast.