145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fína ræðu. Mig langar að koma aðeins inn á þá ákvörðun sem tekin var af hæstv. menntamálaráðherra um að hleypa ekki 25 ára og eldri nemendum í bóknám í framhaldsskólunum eða að fækka nemendaígildum í framhaldsskólunum.

Nú þegar hafa komið í ljós afleiðingar af þeirri ákvörðun og sú ákvarðanataka hefur í raun farið fram hjá Alþingi. Nemendum í framhaldsskólunum hefur fækkað um 742 frá því að ákvörðunin var tekin. Skólastjórnendur hafa miklar áhyggjur af því og einnig fólk almennt á landsbyggðinni, þar sem verið er að draga úr lífsgæðum og hefta möguleika þess til þess að afla sér menntunar í heimabyggð þess eftir 25 ára aldur og koma svo sterkara inn til dæmis í áframhaldandi nám til dæmis við kennslu eða hjúkrun. Reynslan hefur sýnt að það hefur verið mjög dýrmætt fyrir landsbyggðina að fólk geti haldið áfram að mennta sig í heimabyggð sinni og haldið áfram búsetu þar þó að það sé búið að stofna til fjölskyldu í stað þess að þurfa að rífa sig upp með rótum með tilheyrandi kostnaði og snúa þá jafnvel ekki heim aftur.

Nú er verið að vísa þessum nemendum í einkanám, einkaskóla og ýta undir brottflutning af svæðinu. Framhaldsskólarnir veikjast og hafa jafnvel ekki burði til að halda úti nægu námsframboði í framhaldsnáminu og verknáminu og öðru því um líku því að allt styður það hvert annað.

Mig langar að heyra aðeins viðhorf hv. þingmanns gagnvart því.