145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:38]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina því að þetta er að mínu viti mjög alvarlegt mál. 742 manneskjur, það er eins og eitt þorp eða byggðarlag úti á landi og nú er búið að meina þessu fólki, þessum hópi, aðgang að framhaldsskólakerfinu, aðgang sem þetta fólk hafði og gat nýtt sér búnað, húsnæði og kennslukost framhaldsskólanna í sínum byggðarlögum.

Það kemur mjög illa út fyrir marga framhaldsskóla á landsbyggðinni sem ekki fá fullnýtt það sem þeir hafa fram að bjóða vegna þess að þessir nemendur eru horfnir frá.

Það er engin ný speki að menntun er besta lækning við kreppu. Finnarnir áttuðu sig á því þegar þeir voru að vinna sig út úr sinni kreppu. Þeir fjárfestu í menntun. Risafyrirtækið Nokia, sem heimurinn þekkir, var meðal annars afrakstur af þeirri stefnu þess samfélags.

Hér var líka tekin sú stefna eftir hrunið að styðja við fólk til þess að fóta sig á vinnumarkaði, afla sér menntunar og aukinnar færni til þess að það ætti meiri möguleika á vinnumarkaði eftir efnahagsáfallið sem dundi hér yfir. Nú er búið að skrúfa fyrir það hjá fullorðnu fólki sem er orðið 25 ára gamalt og eldra og það kemur verst niður á konum úti á landi. Þetta er landsbyggðarmál. Þeim er vísað úr framhaldsskólakerfinu yfir í dýrari úrræði, vísað yfir í símenntunar- og fullorðinsfræðsluna, sem er góðra gjalda verð en kostar peninga og er bara annað úrræði. Í þeim skilningi ýtir þetta líka undir (Forseti hringir.) mismunun sem er afleitt mál.