145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:43]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú getum við þingmaðurinn farið í topparaleikinn því að ég toppa hennar rafmagnsreikning fyrir húsið mitt á Ísafirði. (LRM: Það er stærra hús.) Það er að vísu stærra, já.

En þetta er nefnilega hárrétt. Ég vísa nú bara á bls. 330 í fjárlagafrumvarpinu þar sem Orkustofnun gerir grein fyrir því hvað vantar á til þess að staðið sé að fullu við þá stefnumótun sem þingið tók með samþykkt frumvarpsins í fyrra. Það eru um það bil 215 millj. kr. fyrir utan 65 millj. kr. til jöfnunar kostnaðar vegna dreifingar raforku.

En Samfylkingin hefur lagt til að jöfnunargjald verði lagt á alla notendur raforku og þar á meðal á stóriðju og aðra stórnotendur (LRM: VG og Samfylkingin …) og VG hefur verið (LRM: Sama …) sama sinnis. Það er auðvitað mál sem mikilvægt er að koma á, það er jafnræðismál. Eins og við höfum nú sagt, hv. þingmaður og ég, bæði í greinum og ræðum: Við erum ein þjóð í einu landi og þetta er jafnræðismál.

Meðan Íslendingar telja sig vera eina þjóð eiga þeir að njóta auðlinda sinna sameiginlega. Þó að þannig vilji til að þær séu staðsettar á suðurhorni landsins eða norðurhorni á að meta það öllum Íslendingum til tekna og taka tillit til þess að við getum búið við sömu skilyrði því að allir þurfa að uppfylla grunnþarfir sínar um fæði, klæði, húsaskjól og hita í húsum.