145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:55]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sína ágætu ræðu og tek undir það sem hann sagði. Mig langar aðeins til að fjalla um heilbrigðismálin vegna þess að það skiptir máli að það sé góður aðgangur að heilbrigðisþjónustu og að allir geti leitað til læknis óháð efnahag. Því hefur ítrekað verið haldið fram af hálfu stjórnvalda að aldrei hafi meira fé verið sett í heilbrigðismálin og það er örugglega rétt því að á hverju ári hækkar krónutalan. Ég er að kíkja í mitt eigið nefndarálit og þar bendi ég á að ef menn taka útgjöld til heilbrigðismála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu höfum við oft staðið okkur betur. Árið 2003 var hlutfallið til dæmis miklu hærra en það er í dag. Þetta er bara einn mælikvarði, þeir eru auðvitað margir. Hv. þingmaður var heilbrigðisráðherra um tíma og þekkir þessi mál.

Þegar verið er að tala um Landspítalann og sagt að aldrei hafi meira fé verið sett í hann er ekkert endilega horft til þess hvort aðgerðum hafi fjölgað eða hlutfall starfsfólks breyst þannig að það séu komnir fleiri hjúkrunarfræðingar á kostnað einhverra annarra sem voru lægra launaðir. Mér finnst erfitt að gera þennan samanburð nema maður sé að bera saman réttu hlutina. Kannski er Landspítalinn búinn að taka við verkefnum sem einhverjar aðrar stofnanir voru með og þar fram eftir götunum. Mér finnst menn svolítið komast upp með að tala um þetta á þessum einföldu nótum.

Ég er engin manneskja til að reikna þetta út en mér finnst áhugavert að horfa á þetta sem hlutfall af landsframleiðslu vegna þess að ég held að það segi eitthvað. Ég vildi bara velta þessu upp hérna og spyrja hvað hv. þingmanni, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, finnst um það.