145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:57]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg líka að þetta sé sá mælikvarði og sú viðmiðun sem OECD styðst við, að horfa á hlutfall af vergri landsframleiðslu. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er hægt að blekkja og afvegaleiða með hlutfallstölum, og þess vegna krónutölum. Við höfum vísað til þess í þessari umræðu að vegna fjölgunar landsmanna og meiri öldrunar, þeirra sem leita til Landspítalans eða reiða sig á þjónustu hans þess vegna, hlutfallslega fleiri eru aldraðir sem þýðir að hlutfall þeirra sem yfirleitt leita til heilbrigðisþjónustunnar eykst, nemur þjónustuþörfin 1,7% í aukningu á ári hverju, bara til Landspítalans. Ef við færum út í að skoða það er náttúrulega augljóst að við verjum miklu minna fé til heilbrigðismála í krónum talið núna en 2005 og svo aftur árið 2000 og 1990 vegna þess að við erum fjölmennari þjóð og búum við aðrar aðstæður. Verg landsframleiðsla og hlutfall af henni hygg ég að sé það rétta.

Ég hef séð aðra viðmiðunarkvarða, eins og hlutfall af skatttekjum landsmanna sem varið er til heilbrigðisþjónustunnar eða sérstaklega til Landspítalans. Það hlutfall hefur lækkað verulega, en annað hlutfall hefur aukist, ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar heldur er það langtímaþróun á 20–30 árum, að hlutfall þess fjár sem fer upp úr vösum okkar í sjúklingagjöldum hefur aukist og er orðið fimmtungur af fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Þetta eru þær tölur sem við hljótum að horfa til.

Það vakti athygli mína sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir minnti okkur á, sem við reyndar vissum, (Forseti hringir.) að í Danmörku borga menn ekki eina einustu krónu þegar leitað er til heilbrigðisþjónustunnar með alvarlega sjúkdóma.