145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:06]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni. Ég held það væri mjög til góðs. En er það ekki svo að við 1. umr. fjárlaga sé reynt að hafa það fyrirkomulag á að ráðherrarnir séu við? Síðan er hugsunin sú að eftir að ráðherra hefur komið máli frá sér til þingsins fari það til nefndar þingsins og það sé síðan á forræði hennar að svara fyrir málið. Mér finnast þessi skil ekki eiga að vera með þessum hætti. Að sjálfsögðu á fjárlaganefnd að taka ábyrgð á málinu og hlutaðeigandi nefndir í þinginu, en ég tel og er sammála hv. þingmanni að það væri mjög æskilegt að ráðherrarnir væru viðstaddir, eins og kom í ljós þarna.

Umræðan um fjárlögin, þessi skammtímaumræða sem tekur til eins árs, tengist framtíðarmarkmiðum líka, eins og fram kom í umræðunni um Ríkisútvarpið, svo dæmi sé tekið. Umræðan verður pólitískari en áður var, sem betur fer er hún pólitísk því að pólitíkin ræðir um skipulag velferðarþjónustunnar, um skipulag samfélags okkar. Það er pólitík. Stundum hefur mér fundist, og ég hef óttast það að við værum að verða of ópólitísk, að þetta sé orðið faglegt tal. Að menn telji að með því að skáka hlutum inn í ráðuneytin þar sem menn vita sáralítið um hvað er að gerast, eins og mun gerast samkvæmt því hryllilega frumvarpi um opinber fjármál sem liggur fyrir þinginu og er runnið undan rifjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með alls kyns hömlum og girðingum sem sett verða á lýðræðislegt vald — ég tel það vera mjög slæmt. Það er önnur tilhneiging sem er í kerfinu, það er að búa til úrskurðarnefndir, ég tók þátt í að gera það. Þetta er svona (Forseti hringir.) kvöð víða að. En alls staðar gengur þetta út á eitt, að reyna að firra pólitíkina ábyrgð einhvern veginn. (Forseti hringir.) Við eigum að taka þessa umræðu. Hún er pólitísk í eðli sínu og það er gott,