145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:12]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að stikla á stóru í nefndaráliti meiri hlutans. Ég ætla að byrja á forsíðunni því að okkur er tíðrætt um að það sé forgangsverkefni að greiða niður skuldir. Þess vegna vekur það athygli hvernig meiri hlutinn hefur kosið að setja fram nefndarálitið þar sem kemur fram að það hafi orðið tekjuaukning en nokkuð sé þó í land með að hefja niðurgreiðslu skulda. Mér þykir það áhugavert í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur einna helst talað fyrir því og forsvarsmenn hennar.

Aðeins neðar á síðunni er talað um breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar sem kalli á aukin útgjöld í öldrunarþjónustu. Ég átti samtal við hv. varaformann fjárlaganefndar áðan þar sem þetta bar á góma og það virðist ekki vera til nein heildstæð sýn. Vissulega er fram undan fjölgun eldri borgara. Við þurfum að huga vel að því og byggja upp. Við verðum að búa til einhverja framtíðarsýn, einhverja aðgerðaáætlun og sjá til þess að hægt verði að framkvæma hana. Annars stöndum við frammi fyrir því að vera með eldra fólkið okkar í úrræðum sem henta ekki og eru að öðru leyti mun dýrari.

Síðan ætla ég að koma inn á hinn títtnefnda Landspítala. Ég og hv. varaformaður fjárlaganefndar ræddum um Landspítalann og framlög til hans og eitt og annað í kringum hann. Hann hélt því fram að það sem ég sagði væri ekki rétt hjá mér en ég ætla að lesa upp úr frétt í Morgunblaðinu frá 1. desember sem ber yfirskriftina „Rekstur Landspítala í járnum“. Þar segir, með leyfi forseta:

„Íslensk stjórnvöld hafa samkvæmt skýrslu OECD varið sem svarar 0,1% af vergri landsframleiðslu í fjárfestingar í innviðum heilbrigðisþjónustunnar og eru þar í næst neðsta sæti OECD-landanna. Lítil sem engin merki eru um að í dag sé gert ráð fyrir breytingum á þeirri þróun eða framlögum stjórnvalda til málaflokksins. Slíkt er áhyggjuefni og læknaráð og hjúkrunarráð Landspítala hvetja til þess að sú vegferð verði strax tekin til endurskoðunar.“

Svo að það sé fært til bókar þá er þetta ekki einhver uppspuni eða ósannindi. Síðar í nefndarálitinu tónar svolítið í þessa átt. Á bls. 11 er farið yfir lífeyrisskuldbindingarnar. Þar kemur fram að ekki er búið að leggja mat á áhrif lífeyrisskuldbindinga vegna launahækkana ríkisstarfsmanna. Við sáum kennarasamningana sem birtust á milli umræðna upp á 1,2 milljarða kr. og það á væntanlega eftir að bæta þeim inn í þetta til viðbótar. Þegar við höfum verið að gagnrýna það að frumvarpið sé ekki nógu vel undirbúið þá kemur það beinlínis fram í nefndaráliti meiri hlutans að það er ótrúlega margt sem er einhver vafi á.

Ég hef mestar áhyggjur af því að ríkisstjórnin ætli að fara að selja gullnámurnar okkar, Landsbankann og einhverjar stórar ríkiseignir, eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur talað um að gera til að greiða upp skuldir. Þrátt fyrir að það virðist ekki vera samstaða um það, a.m.k. miðað við ályktanir stjórnarflokkanna á þingum sínum, þá er þetta lagt til.

Það næsta sem ég ætla að staldra við eru breytingartillögur sem ríkisstjórn og meiri hluti fjárlaganefndar hefur gert og eru framkvæmdir á Alþingisreit. Ég er mjög hlynnt því í raun að Alþingi byggi því að ég tel það hagkvæmt til framtíðar litið að byggja húsnæði og koma starfseminni undir eitt þak í staðinn fyrir að leigja hér út um allt mörg hús sem er kostnaðarsamt og óþægilegt og óheppilegt, en ég get ekki fallist á, frekar en ég gat fallist á skilyrðingar sem settar voru fram í síðasta fjárlagafrumvarpi, 100 ára gamlar teikningar Guðjóns Samúelssonar sem voru ekki einu sinni hugsaðar miðað við veruleika dagsins í dag, eðlilega ekki, enda voru þær gerðar fyrir löngu og menn stórhuga og ætluðu eflaust að byggja mun fyrr og meira að segja annars staðar en nú er gert ráð fyrir. Ég hvet þann forseta sem situr í forsetastól til að sjá til þess að þessi skilyrðing verði tekin út. Ég held að það hafi komið fram hjá mjög mörgum að það sé engan veginn heppilegt að þetta verði gert, en fólk er kannski sammála um að það eigi að byggja.

Næsti liður er 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna. Þar er lagt til að 4 millj. kr. framlag til 100 ára afmælis kosningarréttar kvenna færist og fari undir fjárveitingu til Jafnréttissjóðs Íslands. Ég hef efasemdir um það og spyr: Er það í samræmi við sjóðinn eða reglur hans eða það sem forsætisnefnd lagði upp með að gert yrði? Það eru væntanlega 4 milljónir sem þarna eru eftir. Þetta er eitthvað sem við þurfum að muna eftir að spyrja um á milli umræðna í þinginu, þ.e. í fjárlaganefnd.

Við höfum mikið talað um safnliðina. Mér þykir miður að sjá safnliði tekna inn í fjárlaganefnd aftur. Það er mjög sérkennilegt að sundurliða 200 þús. kr. en ekki 59 millj. kr. Maður skilur ekki alveg hvers vegna framsetningin er með þeim hætti.

Varðandi Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, sem er það næsta sem ég ætla að staldra við, þá hef ég haft áhyggjur af sjóðnum. Við höfum ítrekað gert athugasemdir við framlögin og talið að þau séu allt of lítil. Síðan má auðvitað velta því upp hvort ferðaþjónustan sé að verða of skuldsett, hvort hún geti tekið á sig gengissveiflur þar sem gríðarleg uppbygging hefur átt sér stað á mjög skömmum tíma. Ég hef áhyggjur af því að þetta geti orðið fallvalt því að einhvern veginn finnst manni að um allt sé verið að fjárfesta mikið sem getur orðið fallvalt ef dregst eitthvað saman í greininni eftir kannski stuttan tíma.

Áfram held ég og mig langar að tala um sýslumenn. Ríkisstjórnin hefur ekki staðið við fyrirætlanir sem áttu að fylgja sameiningu sýslumannsembætta, þ.e. flutning verkefna til þeirra. Þau hafa verið afskaplega fá. Innanríkisráðuneytið er eiginlega eina ráðuneytið sem hefur flutt verkefni. Aðrar stjórnsýslustofnanir hafa ekki gert það. Ég veit að það hefur aðeins verið leitað eftir því og óskað eftir lista um hvaða verkefni gætu hugsanlega fallið þar undir og einhver ráðuneyti hafa hreinlega ekki skilað neinu. Það er áhyggjuefni ef þau leyfa sér að skila ekki til innanríkisráðherra hugmyndum um verkefni sem gætu farið til sýslumanna og aukið jafnvel hagræðingu sem einhverju nemur. Það er alla vega ekki verið að standa við samningana.

Síðan langar mig til að tala um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og þann samning sem gerður var við sveitarfélögin um málefni fatlaðs fólks, sem ég er afskaplega ánægð með að hafi náðst, en við þurfum að taka þá umræðu í fjárlaganefnd á milli umræðna. Hins vegar hef ég áhyggjur af því að notendastýrð persónuleg aðstoð situr enn óbætt hjá garði. Einhverra hluta vegna hefur ríkisstjórnin ákveðið að fylgja ekki eftir því tilraunaverkefni sem sett var af stað og sjá til þess að þessi sjálfsagða þjónusta sé til staðar, að fólk geti haft þetta val. Vissulega er þetta eins og flest allt annað kostnaðarsamt en það á ekki að snúast um það. Þetta snýst auðvitað um mannréttindi og það þarf að taka ákvörðun um það hvort þetta á að verða að veruleika eða hvort ríkisstjórnin treystir sér hreinlega ekki til að fylgja þessu eftir.

Virðulegi forseti. Tíminn er svo fljótur að hlaupa frá manni. (Forseti hringir.) Ég er búin að stikla hér á ansi mörgum atriðum (Forseti hringir.) mjög hratt en ég á hugsanlega eftir að tala meira.