145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:25]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ástæða þess að ég ræddi ekki fangelsismál núna er að ég er búin að taka þau fyrir. Ég hef einsett mér að fara ofan í fjárlagafrumvarpið og vera ekki að endurtaka sjálfa mig mikið.

Það vildi svo vel til að í morgun fundaði allsherjar- og menntamálanefnd um fullnustu refsinga, þ.e. frumvarp innanríkisráðherra um fullnustu refsinga, og þar fengum við formann Afstöðu á okkar fund sem var afskaplega áhugavert. Ég tek undir með hv. þingmanni að það hefur komið fram að við erum búin að hitta fangelsismálastjóra á Litla-Hrauni og búin að fá alls konar gesti sem snúa að þessum málum. Svo höfum við heyrt í Páli Winkel fangelsismálastjóra sem hefur sagt að aðstaðan og fjármunirnir og annað sé engan veginn nægjanlegt og hann sé að missa þjálfað starfsfólk og segir, eins og við getum ímyndað okkur, að slíkur mannauður sé ekki tíndur upp af götunni.

Við vitum að það er búið að loka kvennafangelsinu og það er smám saman verið að loka vegna bágrar aðstöðu. Það er ekki eðlilegt í jafn litlu samfélagi og okkar að það séu 500 manns sem bíða eftir því að hefja afplánun, það eru 155 afplánunarpláss hér. Svo hef ég líka áhyggjur af því að reksturinn á Hólmsheiði sé ekki tryggður í fjárlögum komandi árs. Ég hef trú á því að ekki sé gert ráð fyrir því eins og þyrfti. Þegar maður fer að kynna sér þessi málefni betur sér maður að það er mjög margt sem við leiðum kannski ekki hugann að dagsdaglega.

En ég er sammála hv. þingmanni í því að betrun er ekki aðeins góð fyrir fanga, hún er góð fyrir samfélagið og hún er náttúrlega miklu ódýrari og okkur ber að sinna þeim þætti miklu meira. Það er eiginlega engin betrun í gangi í dag nema að mjög litlu leyti í sambandi við nám.