145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:29]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir með þingmanninum þótt ég sé ekki viss um að ég mundi vilja senda fanga út í stað þess að láta þá bíða því að þá eru þeir auðvitað farnir frá fjölskyldum sínum. Það er kannski það sem við höfum haft áhyggjur af, að ef við fáum ekki aukin framlög í málaflokkinn núna geti það þýtt að við lokum á Akureyri og jafnvel Kvíabryggju líka. Mér finnst það mjög alvarlegt mál ef svo verður. Ekki fjölgar plássunum við það og listinn lengist og menn búa við mun meiri þrengsli.

Það vantar vissulega stofnanir eða öllu heldur vantar aukna þjónustu, félagsþjónustu, sálgæslu og annað til að aðstoða fanga. Það þarf að passa það að meðferðaráætlanir séu gerðar þegar þeir koma inn til að styðja við þá, styðja þá til betrunar, styðja þá út í lífið aftur og það þarf að gerast strax.

Ég hef lesið það sem kemur frá fangavörðum og formanni þeirra sem ég er hér með viðtal við og það kom líka fram hjá formanni Afstöðu í morgun að fangaverðir gera oft og tíðum miklu meira en þeim ber. Þeir sinna störfum sem þeim ber ekki að sinna og eru jafnvel ekki menntaðir til en sinna af hyggjuvitinu einu saman. Ég tek einnig undir það að þessi niðurskurður þýðir að fangar fá ekki tilhlýðilega þjónustu. Þeir fá ekki að vera úti vegna þess að það er enginn á vakt. Ef það kemur eitthvað upp á og þeir eru úti þá þurfa allir að fara inn o.s.frv. Það er ýmislegt sem er ekki hægt að framkvæma sem bitnar bara á þeim sem eru í fangelsi. Þetta er líka öryggismál. Þetta er öryggi fanga og þetta er öryggi fangavarða.