145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:31]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður ræddi um endurmat á yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks, skýrslu sem er komin út og samninginn. Þetta er mjög ánægjulegt og gott að þetta sé í höfn. Við þekkjum það, sem sitjum í fjárlaganefnd og búin að hitta öll sveitarfélögin á landinu, að þetta hvíldi þungt á þeim.

En eins og hv. þingmaður kom inn á þá virðist eitthvað standa út af varðandi NPA-samningana, notendastýrða persónulega aðstoð, og það er áhyggjuefni. Þau gögn sem ég hef lesið varðandi þetta verkefni — við heyrum að þetta sé dýr þjónusta, að kostnaðarauki hafi verið mikill. Manneskja sem fær þessa aðstoð — og margar manneskjur eru úti í samfélaginu að vinna eða í námi eða að gera hluti sem annars væri ómögulegt. Ég veit ekki hvort til er ítarlegri úttekt, hvort þetta komi inn í allsherjar- og menntamálanefnd eða hvort þetta tilheyri kannski frekar hv. velferðarnefnd.

En mér finnst vanta greiningu á því hvað er sparnaður þarna. Foreldrar og aðstandendur þurfa ekki að vera að sinna einstaklingi sem þarf á þjónustu að halda. Eru færri sjúkrahúsinnlagnir? Er viðkomandi að skila sköttum sínum til samfélagsins vegna þess að hann er í vinnu? Einhverja þjónustu þyrfti þetta fólk að fá, mikla þjónustu, jafnvel í búsetuúrræðum og annað. Ég hef efasemdir. Ég velti því fyrir mér, hvort búið er að skoða þetta nógu mikið ofan í kjölinn.