145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:34]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Ég tek undir það að vissulega er þetta dýrt úrræði. En okkur ber samt sem áður að gefa fólki val. Og það að fólk geti stundað nám eða annað slíkt — við þekkjum það að varaþingmaður Bjartrar framtíðar hefur notið þessarar þjónustu sem gefur henni og öðrum sem við slíka fötlun búa tækifæri til að taka þátt í lífinu, tækifæri til að hafa tilfinningu fyrir því að vera nýtur þjóðfélagsþegn í staðinn fyrir að vera einhvers staðar fastur heima, vegna þess að stuðningur er ekki viðunandi.

Það gleymist svo oft, þegar verið er að tala um, finnst mér, þessa hluti, að þetta er heilbrigt fólk, þ.e. í hugsun, en það kannski getur bara ekki séð um sig að öllu leyti sjálft, komið sér á milli staða o.s.frv. Og eins og hv. þingmaður segir: Að vera nýtur samfélagsþegn, vinna, skila sköttum og skyldum inn í þjóðfélagið, það verður til þess að allir græða og það er það sem við viljum gera.

Það átti náttúrlega að endurskoða samninginn eins og við vitum og fram er komin áfangaskýrsla um hann. Það virðast vera efasemdir um að koma þessu í fastar skorður. Menn bera því fyrir sig, að mér skilst, að þetta sé svo kostnaðarsamt. En ég tek undir með þingmanninum að annan afleiddan kostnað þarf að skoða — færri sjúkrahúsinnlagnir, foreldrar geta komist út á vinnumarkaðinn vegna þess að þeir eru ekki bundnir yfir fatlaða einstaklingnum sínum o.s.frv.; ég held að slík könnun þurfi að fara fram.