145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:53]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eftir að hafa mært hæstv. forseta tel ég nú að ég eigi síst skilið af hans hendi að vera lækkaður í tign, nóg er nú samt.

Ég er þeirrar skoðunar, hv. þm. Ögmundur Jónasson, að maður sé alltaf að læra. Og jafnvel gamlir þrælar eins og við, sem höfum lengi verið hér á dögum og margt reynt og mikið lært og alltaf að lesa, afla okkur nýrra upplýsinga, getum enn numið töluvert af til dæmis öðrum þingmönnum stjórnarliðsins til að bæta skilning okkar á þeim vanda sem við er að glíma. Til að mynda var það ekki fyrr en á þessum fundi fyrr í kvöld að ég gerði mér grein fyrir því að af þessum 10 þús. kalli sem ríkisstjórnin er svo stolt af að hafa bætt við bætur til öryrkja á þremur árum, eru 4 þús. tekin með matarskattinum sem tók gildi um síðustu áramót. Það skiptir mig máli að vita það.

Og svona aðeins til að bæta því við af því að það tengist nú matarskattinum þá veit ég að hv. þingmaður man að það voru ákveðnar mótvægisaðgerðir sem ráðist var í í því skyni. Vaxtabætur voru hækkaðar. Man þingmaðurinn það? Barnabætur voru hækkaðar samtals um 1.000 millj. kr. Þegar við skoðum fjárlagafrumvarpið núna voru teknar til baka 600 millj. kr. samtals, þannig að það er ekki mikið eftir.

Ég skora nú á hv. þm. Ögmund Jónasson, sem ég veit vaskastan manna, að fara hvergi heim að sofa fyrr en hann er algerlega úrkula vonar um það að ekki verði fleiri ræður haldnar því að svo lengi lærir sem lifir.