145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:56]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo sem ekki hægt að troða upp á fólki upplýsingum ef það vill ekki taka við þeim. En hins vegar veit ég að hv. þingmaður er mér sammála um það af sinni löngu reynslu að það er líka hlutverk okkar sem höfum verið hér lengst á dögum og höfum flest ár á baki og jafnvel flest grá hár að reyna að leiðbeina þeim sem kannski eru ekki komnir jafnlangt á þroskabrautinni og hv. þm. Ögmundur Jónasson.

Ég er kannski að hugsa um þá hv. þm. stjórnarliðsins sem komið hafa hingað upp ráðvilltir en augljóslega haft góðan vilja til að bæta hag og kjör öryrkja og aldraða en vita ekki hvernig þeir eiga að fara að því. Ég gæti nefnt eina þrjá eða fjóra og allir sögðu það sama, að þeir þyrftu betri upplýsingar og meiri gögn til að skilja málið. Besta leiðin til að afla þeirra er auðvitað að hlusta á menn eins og fyrrverandi formann BSRB, sem ég veit að mun af náð sinni (Forseti hringir.) veita okkur þau forréttindi að fá að hlusta á margar ræður hér síðar í nótt.