145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður vísar til mín spurningum um það hvernig skilja beri ákveðna hluti í fjárlagafrumvarpinu. Þá vill svo til að í salinn gengur hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson sem hefur talað af skyggnu mannviti, þekkingu og góðum vilja um þann málaflokk og kemur hingað nýklipptur og fallegur. Og jafnvel þótt ég kunni kannski að geta lagt einhverjar útskýringar á borð fyrir hv. þingmann tel ég að þar eins og í svo mörgum efnum sé mér miklu fremri hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson.

Hins vegar vísa ég hv. þingmanni í nýlegan svokallaðan forstjórapistil Páls Matthíassonar, sem enn er forstjóri Landspítalans, þar sem hann útskýrir nokkuð ítarlega fjárþörfina. Samkvæmt því, að teknu tilliti til breytingartillagna meiri hlutans, vantar til að halda svipuðu þjónustuframboði og aðbúnaði 1.400 millj. kr. til viðhalds og nýframkvæmda, 1.040 millj. kr. til að mæta almennri aukningu á eftirspurn, 400 millj. kr. til að halda áfram uppbyggingu tækjakosts og jafn hárri upphæð til að mæta kostnaði af nýjum kjarasamningi lækna. Það var vanáætlað.

Það vildi ég nú að fram kæmi hér ef það mætti upplýsa hv. þingmann. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að í þessum efnum skipti miklu máli að vinna með forustu og starfsmönnum á Landspítalanum. Ég held að reynslan sýni að það hefur alltaf gefist best. Það gafst vel fyrir stjórnarmeirihlutann í fyrra þegar þeir hættu loksins að berja sínum fögru höfðum við grjótið og fóru að hlusta. Það leiddi til þess að allir féllust í faðma, að minnsta kosti stórir partar af stjórnarandstöðunni, þótt ég hafi ekki verið gefinn fyrir þau faðmlög, forusta sjúkrahússins og ríkisstjórnarinnar. Og því ekki að endurtaka þann leik? Er ekki miklu betra að elska friðinn (Forseti hringir.) og strjúka kviðinn en að standa í eilífum ófriði? Það er alla vega mín reynsla.