145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:02]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, hv. þingmaður segir nokkuð. Þegar ég renni í gegnum breytingartillögur hv. meiri hluta á frumvarpi til fjárlaga koma í ljós nokkrir minni liðir, til dæmis liður undir heitinu Ýmis verkefni, 5 millj. kr., tímabundið framlag til Lions-hreyfingarinnar vegna framboðs til heimsforseta. Á það heima í fjárlögum yfir höfuð? Af hverju geta þessi félagasamtök ekki bara fundið þetta út sjálf? Sömuleiðis er 4 millj. kr. framlag til Biblíufélagsins og ég hef ekki enn þá fengið úr því skorið hvort um sé að ræða Hið íslenska biblíufélag eða ekki.

Þetta eru frjáls félagasamtök eftir því sem ég best veit. Af hverju koma þá fjárframlög til þeirra beint úr ríkissjóði? Hver er réttlætingin á því? Ég á svolítið erfitt með að skilja það. Það væri gott ef hv. þingmaður, eins grásprengdur og útlærður í þingstörfum og hann er, gæti útskýrt það betur fyrir mér.