145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:04]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu áðan. Hann hóf mál sitt á því að hrósa einstökum þingmönnum í meiri hlutanum fyrir málefnalegar ræður, talaði um að þeir væru gjöfulir og var jákvæður í garð þeirra sem höfðu talað en þegar því var lokið lamdi hann á okkur með (Gripið fram í.) þeim svipuhöggum sem orð hans geta valdið okkur, en hann var málefnalegur sem var gott.

En það var eitt sem ég skildi ekki. Um leið og hann kallaði eftir meiri fjármunum í heilbrigðiskerfið, til aldraðra og öryrkja og til RÚV þá húðskammaði hann okkur fyrir að ná ekki jöfnuði í ríkisfjármálum og sagði að það væri aumingjalegt að vera eingöngu með jöfnuð upp á 10 milljarða, jöfnuð sem gæti hugsanlega farið lækkandi reyndar þegar allir kjarasamningarnir verða komnir inn. En þegar við tökum saman allar hugmyndir stjórnarandstöðunnar sem mér telst til að séu eitthvað vel yfir 10 milljarða þá erum við farin að reka ríkissjóð með halla. Og þær tekjutillögur hv. þm. Kristjáns L. Möllers gera það einhvern veginn að verkum að skattpína eigi fyrirtæki og almenning á móti, sérstaklega landsbyggðina sýnist mér, sem ég get ekki fallist á. Mér finnst þetta skrýtin nálgun og ég vil spyrja hv. þingmann út í það. Maður verður að sýna ráðdeild og aga og reyna að reka ríkissjóð með jöfnuði og með afgangi, eins og við erum að reyna að gera, og mér finnst ansi sérstakt þegar maður er einhvern veginn laminn úr báðum áttum eins og hv. þingmaður gerði svo vel hérna rétt áðan.